01. Des. 2021

Jón Sigurbjörnsson leikari látinn

Jón Sigurbjörnsson leikari, leikstjóri og óperusöngvari andaðist á dvalarheimilinu Hrafnistu í gær, 99 ára að aldri.

Jón lék lengst af með Leikfélagi Reykjavíkur en var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið á árunum 1960-67, að undanskildum árunum 1964 og 1965, er hann var ráðinn til konunglegu sænsku óperunnar í Stokkhólmi. Þar söng hann m.a. í óperunum Il trovatore, Rigoletto og Aidu. Jón söng einnig hér heima, meðal annars hlutverk nautabanans í Carmen, sem hann leikstýrði sjálfur hjá Þjóðleikhúsinu. Hann söng í íslensku óperunum Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og Silkitrommunni eftir Atla Heimi Sveinsson, sem báðar voru færðar upp af Þjóðleikhúsinu. Meðal sýninga sem hann lék í hér eru Kardemommubærinn, Landið gleymda, Kysstu mig Kata og Óvænt heimsókn, en myndirnar af Jóni hér meðfylgjandi eru úr þessum sýningum.

Jón stundaði leiklistarnám hjá Lárusi Pálssyni 1944-45 og lauk prófi frá The American Academy of Dramatic Arts í New York árið 1948. Hann stundaði söngnám hjá Sigurði Demetz árum saman, en einnig í New York, Mílanó og Róm.

Jón hóf leiklistarferil sinn sem Hóras í Hamlet hjá Leikfélagi Reykjavíkur vorið 1949. Hann var fastráðinn leikari við Leikfélag Reykjavíkur á árunum 1967-92 og leikstýrði þar jafnframt fjölda sýninga. Hann lék einnig með leikhópnum Sex í bíl, sem fór um landið um miðja síðustu öld.

Jón lék um 120 hlutverk á sviði, þar af í fjölda ópera og söngleikja. Þá lék hann í útvarpsleikritum, sjónvarpsleikritum og meðal annars í kvikmyndunum Landi og sonum, Útlaganum, Gullsandi, Magnúsi, Bíódögum og Myrkrahöfðingjanum. Síðasta kvikmyndahlutverkið var í stuttmyndinni Síðasta bænum.

Jón var formaður Leikfélags Reykjavíkur 1956-59, formaður Félags íslenskra leikara 1961-63, var gerður heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur og var sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar árið 2005. Hann var einn af sex listamönnum í framvarðarsveit Leikfélags Reykjavíkur sem var heiðraður, árið 2009, með opnun margmiðlunarþáttar um hann í forsal Borgarleikhússins. Ævisaga Jóns, Sú dimma raust, skráð af Jóni Hjartarsyni leikara kom út árið 2001.

Þjóðleikhúsið þakkar Jóni framlag sitt til íslenskrar leiklistar og vottar aðstandendum hans innilega samúð.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími