Edda Ágústsdóttir fv. búningameistari við Þjóðleikhúsið er látin
Edda Ágústsdóttir, fyrrum búningameistari Þjóðleikhússins er látin.
Edda fæddist í Reykjavík 28. október 1934. Á yngri árum starfaði Edda sem saumakona hjá Andrési en hóf síðar störf við búningasaum á saumastofu Þjóðleikhússins. Þar gerðist hún búningameistari og starfaði í Þjóðleikhúsinu í áratugi, allt til 72 ára aldurs. List hennar fólst ekki einungis í búningunum sem hún skapaði, heldur því hvernig hún lagði alúð og nákvæmni í allt sem hún gerði. Edda tók þátt í að skapa ótal búninga af listfengi og kom þannig að hundruðum leiksýninga Þjóðleikhússins á síðustu áratugum – mörgum sýningum sem eru ógleymanlegar í minnum þeirra áhorfenda sem á horfðu.
Starfsfólk Þjóðleikhússins færir fjölskyldu og vinum Eddu innilegar samúðarkveðjur og minnist hennar með hlýju. Útför Eddu fer fram frá Grafarvogskirkju föstudaginn 4. júlí 2025.