04. Okt. 2021

Ástardrykkurinn í Þjóðleikhúsinu

Hin margrómaða gamanópera Ástardrykkurinn eftir ítalska tónskáldið Donizetti verður frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum 14. október næstkomandi. Þessi sívinsæli óperufarsi var síðast á fjölum Þjóðleikhússins fyrir rúmum 50 árum en snýr nú aftur í uppfærðri þýðingu og nýstárlegri mynd.

Að baki verkefninu stendur Sviðslistahópurinn Óður sem samanstendur af þeim Sólveigu Sigurðardóttur, Þórhalli Auði Helgasyni, Ragnari Pétri Jóhannssyni, Jóni Svavari Jósefsson og Sigurði Helga Oddssyni. Tómas Helgi Baldursson leikstýrir og Níels Thibaud Girerd er honum til aðstoðar.

Ástardrykkurinn segir frá hinum óframfærna Nemorino sem er ástfanginn af hinni ríku og fögru Adinu. Nemorino er fátækur og Adinu ekki samboðinn en herforinginn Belcore ágirnist hana líka. Þá vill svo heppilega til að Nemorino hittir töfralækninn Dulcamara, sem prangar upp á hann ástardrykk nokkrum. Þegar Adina kemst að því að Nemorino hefur skráð sig í herinn til þess að hafa efni á drykknum verður hún hrærð og áttar sig á hve heit og sönn ást hans í raun og veru er. Hún greiðir lausn hans undan herskyldu og þau ná saman að lokum.

Íslensk þýðing Guðmundar Sigurðssonar á verkinu var gerð árið 1967 fyrir hóp sem kallaði sig Óperuna og var Ástardrykkurinn þeirra fyrsta verkefni. Tveimur árum síðar var sýningin tekin upp fyrir Ríkissjónvarpið og var langstærsta verkefni sem sjónvarpið hafði tekið upp fram að því. Sólveig Sigurðardóttir sem jafnframt fer með hlutverk Adinu í sýningunni hefur nú aðlagað þýðinguna og gert hana aðgengilegri fyrir nútímaáhorfendur.

Brugghúsið Eimverk hefur af þessu tilefni framleitt nýjan ástardrykk, Vítisást, sem verður til sölu fyrir gesti Þjóðleikhúskjallarans á meðan á sýningu stendur.

KAUPA MIÐA
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími