Unnur Ösp og Vigdís Hrefna í aðalhlutverkum í Framúrskarandi vinkona
Unnur Ösp Stefánsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir munu fara með hlutverk vinkvennanna Elenu og Lilu í stórsýningunni Framúrskarandi vinkona, sem byggir á Napólísögum Ferrante og hefur farið sigurför um heiminn. Leitað er að tveimur stúlkum á aldrinum 8-12 ára til þess að fara með hlutverk vinkvennanna sem börn. Þegar hefur verið tilkynnt að leikstjórinn Yael Farber frá Suður-Afríku muni leikstýra verkinu, en koma hennar er sannkallaður hvalreki fyrir leikhúslífið því hún hefur á undanförnum árum verið afar farsæll og eftirsóttur leikstjóri um allan heim.
Vinsældir bókanna um þær Elenu og Lilu hafa verið með miklum ólíkindum undanfarin ár auk þess sem RÚV sýnir um þessar mundir vinsæla sjónvarpsþætti sem byggja á sögunum. Leikgerð bókanna hefur einnig átt miklum vinsældum að fagna og loksins er komið að því að íslenskir leikhúsgestir fái að njóta en Þjóðleikhúsið sýnir verkið á Stóra sviðinu í haust. Líkt og þeir sem hafa lesið bækur Ferrante þekkja er um að ræða epíska frásögn tveggja kvenna allt frá nöturlegri barnæsku þeirra í Napólí og fram á efri ár. Nú er orðið ljóst að leikkonurnar Unnur Ösp Stefánsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir muni fara með hlutverk vinkvennanna en auk þeirra munu tvær yngri leikkonur einnig túlka hlutverk þeirra.
Leikprufur – leitað að tveimur ungum stúlkum til að leika þær ungar
Þjóðleikhúsið leitar nú að tveimur stúlkum á aldrinum 8-12 ára til þess að fara með hlutverk Elenu og Lilu á barnsaldri. Áhugasamar stúlkur á þessum aldri geta sent inn umsókn í gegnum vef Þjóðleikhússins og í framhaldi af því verður hluta umsækjenda boðið í opnar prufur í Þjóðleikhúsinu.
UPPFÆRT! Umsóknarfrestur var til og með 15. júní.
Unnur Ösp og Vigdís Hrefna hafa verið áberandi í leikhúslífinu undanfarin ár. Unnur hefur verið samningsbundin í Borgarleikhúsinu um árabil þar sem hún hefur leikið fjölmörg stór hlutverk auk þess sem hún hefur getið sér gott orð sem leikstjóri. Nú í upphafi ársins færði hún sig yfir til Þjóðleikhússins og er nú samningsbundinn leikstjóri og leikkona. Vigdís Hrefna hefur leikið fjölmörg og ólík hlutverk í Þjóðleikhúsinu þar sem hún hefur verið í hópi fastráðinna leikara um árabil. Síðastliðið ár hefur hún verið í Englandi þar sem hún hefur stundað nám í leikstjórn. Uppsetningin á Framúrskarandi vinkonu mun sameina þær Unni og Vigdísi, en þær hafa verið miklar vinkonur um árauga skeið – en þó hafa þær ekki leikið saman á sviði síðan þær útskrifuðust úr Leiklistarskóla.
Verður mikil leikhúsveisla. Heimsþekktur leikstjóri á leiðinni.
„Uppsetning Yael Farber á Framúrskarandi vinkonum verður án vafa mikil leikhúsveisla“, segir Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri og bætir við: „Við erum ákaflega spennt að sviðsetja þetta verk sem hefur snert streng í hjörtum fólks um alla veröld. Það er leitun að bókaflokki sem hefur náð svo mikilli útbreiðslu á jafn skömmum tíma. Sagan er hjartnæm, grimm en einnig falleg og við getum varla beðið eftir því að hefja vinnu við verkið með leikstjóranum Yael Farber en hún er eftirsóttur leiksjóri um allan heim og við erum ákaflega þakklát að fá að njóta krafta hennar hér í Þjóðleikhúsinu.“
Napólísögur Ferrante hafa farið sigurför um heiminn, þær hafa selst í yfir tíu milljónum eintaka um allan heim og verið þýddar á fjölmörg tungumál. Sjónvarpsþættir sem byggja á sögunum eru þegar orðnir þeir vinsælustu í sögu Ítalíu. Nafnið Elena Ferrante er þó dulnefni því höfundurinn hefur alltaf kosið að fara huldu höfði, þótt ýmsir hafi reynt að ljóstra upp um hann. Gríðarleg eftirvænting er eftir nýrri skáldsögu sem kemur út um allan heim þann 1.september. Þann dag kemur nýja bókin út á íslensku í útgáfu Benedikt bókaútgáfu.
Þegar Elena Greco fær símtal um að æskuvinkona hennar, Lila, hafi horfið sporlaust hefst hún handa við að rekja sögu flókinnar vináttu þeirra. Framúrskarandi vinkona segir frá vinkonunum Elenu og Lilu og spannar tímabil þegar heimurinn er að taka stakkaskiptum. Þetta er saga um vináttu, harða lífsbaráttu og umbreytingar.
Leikstjórinn Yael Farber er alþjóðlegur leikstjóri sem hefur leikstýrt víða um heim á undanförnum árum. Farber er frá Suður-Afríku en býr í Kanada og Singapúr. Hún hefur leikstýrt rómuðum sýningum í helstu leikhúsum Bretlands, Breska þjóðleikhúsinu, The Old Vic, Young Vic og Donmar Warehouse. Nú nýlega hlaut hún afbragðs dóma fyrir uppsetningu sína á Hamlet með Hollywoodstjörnunni Ruth Negga, sem sýnd hefur verið í Dublin og New York. Farber er einnig leikskáld og hefur hún sjálf og sýningar hennar hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga.