08. Jún. 2020

Þjóðleikhúsið og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn í samstarf um varðveislu verðmæts leiklistararfs þjóðarinnar

Þjóðleikhúsið og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hafa tekið upp samstarf í þeim tilgangi að varðveita ómetanlegar upptökur frá leiksýningum, allt frá opnun Þjóðleikhúss til þessa dags, og gera þær aðgengilegar á stafrænu formi. Í þeim tilgangi hefur Þjóðleikhúsið afhent Landsbókasafni mikið magn af hljóð- og myndritum sem leikhúsið hefur tekið upp á undanförnum áratugum. Um er að ræða margvíslegar upptökur af leiksýningum og viðburðum á sviðinu allt frá opnun Þjóðleikhússins árið 1950, sem og leikhljóð sem gerð hafa verið í gegnum árin fyrir sýningar leikhússins. Hér má nefna segulbönd, geisladiska, VHS spólur og stafrænar upptökur, sem teknar hafa verið upp af tæknimönnum leikhússins í gegnum árin, og geymd hafa verið í leikhúsinu fram að þessu.

Við afhendinguna undirrituðu Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður og Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri undir samstarfssamning milli stofnanna sem kemur til framkvæmda á komandi árum. Sameignlegt markmið stofnananna er að gera þennan hluta leiklistararfsins aðgengilegri í meira mæli til fræðimanna og almennings á komandi árum. Upptökur sem nú eru afhentar Landsbókasafni til varðveislu er góð viðbót við það sem áður er komið í Landsbókasafn. Þegar Leikminjasafn Íslands var lagt niður runnu gögn þess til Þjóðminjasafns og Landsbókasafns. Þessi gögn, upptökur, ásamt skjalasöfnum leikara og leikfélaga, leikhandritum og leikskrám, svo eitthvað sé nefnt, mynda því eina góða heild í sögu sviðslista. Í sumar vinnur Þjóðleikhúsið sjálft einnig að mikilvægri skráningu gagna sem er að finna í söfnum leikhússins.

Magnús Geir: „Það er vel við hæfi að á 70 ára afmæli leikhússins séu þessar dýrmætu upptökur að komast í öruggt skjól í hendur færasta fagfólks landsins í varðveislu. Ég hlakka til að móta áfram samstarf við Landsbókasafnið og fá tækifæri til að líta augum eitthvað af perlunum sem þarna leynast.“

Ingibjörg: „Segja má að efnið sem nú er verið afhenda Landsbókasafni til varðveislu og miðlunar sé meðal frumgagna íslenskrar leiklistar s.l. 70 ár. Að gera þetta mikilvæga efni aðgengilegt rannsakendum í framtíðinni og nýta upplýsingatæknina til að tengja við önnur gögn Landsbókasafnsins er mikilvægt fyrir íslenska sviðslistasögu.“

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími