03. Jún. 2020

Fjögur ný íslensk leikrit frumsýnd í Þjóðleik á næsta ári

Þjóðleikur er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Markmið verkefnisins er að efla íslenska leikritun, styrkja leiklistariðkun ungs fólks og auka áhuga þess á leiklist, auk þess sem það styrkir fagþekkingu á leiklist í skólum og hjá áhugaleikfélögum. Verkefnið gengur nú gegnum þróunarferli sem ætlað er að styrkja grundvöll þess til frambúðar og koma samstarfinu við landshlutana í fastari skorður. Nú á dögunum hlaut verkefnið styrk frá Barnamenningarsjóði og gerir það mögulegt að ráða fjögur ung leikskáld til að skrifa ný leikrit sem svo verða flutt um allt land.

  • Matthías Tryggvi Haraldsson, Egill Andrason, Álfrún Örnólfsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Gréta Kristín Ómarsdóttir og Hildur Selma Sigbertsdóttir.Ljósm: Halldór Örn Óskarsson

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Hólmavíkur og samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra fengu styrk úr Barnamenningarsjóði til að fá ung og efnileg leikskáld til að semja ný leikrit fyrir ungt fólk á landsbyggðinni sem tekur þátt í Þjóðleik.

Markmið Þjóðleikhússins með Þjóðleik er að tengjast á lifandi hátt ungu fólki á landsbyggðinni og efla þannig bæði áhuga þess og þekkingu á listforminu. Ung og efnileg, sem og þekkt íslensk leikskáld, eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara. Þau leikskáld sem að þessu sinni skrifa fyrir Þjóðleik eru Álfrún Örnólfsdóttir, Egill Andrason, Hildur Selma Sigbertsdóttir og Matthías Tryggvi Haraldsson. Verkin verða síðan sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins veturinn 2020-2021.

Að jafnaði skrifa þrjú leikskáld fyrir Þjóðleik hverju sinni, en nú var ákveðið að bæta fjórða leikskáldinu við, þegar Þjóðleikhúsinu barst óvænt sérlega spennandi nýtt verk eftir kornungan höfund, Egil Andrason. Þjóðleikhúsið auglýsti eftir leikritum fyrir börn og ungt fólk nú í febrúar, og bárust alls 150 umsóknir. Þjóðleikhúsið festi sér tvö af þessum leikritum til uppsetningar, en leikrit Egils Andrasonar vakti einnig sérstaka athygli dómnefndarinnar. Þar sem það þótti henta Þjóðleiksverkefninu afar vel var ákveðið að slá til og bæta því í hóp þeirra leikrita sem verða í boði á vegum Þjóðleiks á næsta leikári. Björn Ingi Hilmarsson, forstöðum. barna- og fræðslustarfs  Þjóðleikhússins, undirritaði samning við leikskáldin fjögur s.l. föstudag.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri sagði af því tilefni að sérstök áhersla væri nú lögð á að efla höfundastarf í Þjóðleikhúsinu. “Þjóðleikhúsið hefur nú að undanförnu kallað eftir nýjum leikritum fyrir börn og nýtt Hádegisleikhús Þjóðleikhússins. Undirtektir höfunda hafa farið fram úr björtustu vonum, en 150 umsóknir bárust vegna barnaleikrita, og 247 umsóknir vegna Hádegisleikhússins. Það er mikið ánægjuefni að geta boðið áhorfendum á öllum aldri upp á svo mikið af nýjum, íslenskum verkum, og Þjóðleikur er frábær vettvangur bæði fyrir höfunda og ungt leikhúsáhugafólk til að spreyta sig á leikhúsforminu og halda áfram að þróa hæfileika sína.”

Nánar um Þjóðleik:

Verkefnið er tvíæringur sem fór fyrst fram á Austurlandi veturinn 2008-2009 og hefur síðan þá vaxið og dafnað og er nú yfirleitt haldinn í sjö landshlutum. Á síðasta leikári var haldið upp á 10 ára afmæli Þjóðleiks, þannig að leikárið 2020-21 fer Þjóðleikur fram í ellefta skipti.

Skapandi hugsun og hugmyndavinna er lögð til grundvallar á námskeiðum sem Þjóðleikhúsið býður fullorðnum leiðbeinendum verkefnanna á. Áhersla er lögð á að fá þátttakendur til að ögra sjálfum sér sem listamenn. Með því að leita út fyrir ramma hins augljósa og hugsa um hvert smáatriði sem listræna ákvörðun má gefa hverju leikverki nýjar víddir og undirtexta sem gera nálgunina miklu áhugaverðari fyrir áhorfandann.

Á lokahátíðum Þjóðleiks sem haldnar eru að vori, (næstu lokahátíðir verða vorið 2021), koma saman allar sýningar Þjóðleiks í hverjum landshluta á stórri leiklistarhátíð. Þar blasir við hversu ólíkar leiðir er hægt að fara að einum og sama textanum. Það er engu líkt að fylgjast með ungu leikhópunum horfa á aðrar uppsetningar en þeirra eigin á sama verki og heyra þau svo tala saman af ástríðu og þekkingu um mismunandi túlkunarleiðir, persónusköpun og stíl. Reynslan hefur gefið þeim aðgang að orðræðunni og þau hafa fengið lykla í hendurnar sem opna dyrnar að virkri þátttöku í menningarlegri samræðu í miklu víðara samhengi.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími