Þjóðleikhúsið með flestar tilnefningar til Grímunnar í ár eða alls 41
-
Úr Atómstöðinni. Ebba Katrín Finnsdóttir lék Uglu og hreppti tilnefningu til Grímunnar fyrir.
Þjóðleikhúsið hlýtur 41 tilnefningu til Grímuverðlauna í ár. Atkvæðamestar eru sýningarnar Atómstöðin endurlit, sem fær alls 12 tilnefningar, dansverkið Eyður í samstarfi við Marmarabörn sem fær 11 tilnefningar og sýningin Engillinn sem byggir á höfundarverki Þorvaldar Þorsteinssonar og fær 10 tilnefningar.
Bæði Atómstöðin – endurlit og Engillinn eru tilnefndar sem leiksýning ársins. Atómstöðin – endurlit eftir Halldór Laxness Halldórsson og Unu Þorleifsdóttur, byggt á skáldsögu Halldórs Laxness og Engillinn eftir Finn Arnar Arnarsson og Þorvald Þorsteinsson eru tilnefnd í flokknum leikrit ársins. Þá eru leikstjórarnir Una Þorleifsdóttir og Finnur Arnar tilnefnd sem leikstjórar ársins fyrir sömu sýningar. Marmarabörn eru einnig tilnefnd fyrir Eyður í flokkunum sýning ársins og leikrit ársins.
Sýningin Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag er tilnefnd sem barnasýning ársins.
Leikarar Þjóðleikhússins sem eru tilnefndir eru Pálmi Gestson, Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir, Oddur Júlíusson, Eggert Þorleifsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Katrín Gunnardóttir (Marmarabörn).
Aðrar sýningar leikhússins sem hljóta tilnefningar til Grímunnar eru Shakespeare verður ástfanginn, Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) og samstarfsverkefnin Brúðumeistarinn og Brúðkaup Fígarós.