28. Maí. 2020

Sturla Atlas fer með hlutverk Rómeó

Sigurbjartur Sturla Atlason, eða Sturla Atlas eins og hann er betur þekktur, mun fara með hlutverk Rómeó í uppsetningu Þorleifs Arnar á Rómeó og Júlíu á Stóra sviði Þjóðleikhússins á næsta leikári. Fjórtán leikurum var boðið í ítarlegar prufur fyrir hlutverkið en alls höfðu um 100 sótt um. Sturla Atlas var á endanum sá sem hreppti hnossið. Ebba Katrín Finnsdóttir mun fara með hlutverk Júlíu, eins og áður hefur komið fram.

Þjóðleikhúsið undirbýr nú viðamikla uppsetningu á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Það hefur legið ljóst fyrir um nokkurn tíma að Ebba Katrín Finnsdóttir muni fara með hlutverk Júlíu, en ákveðið var að halda prufur fyrir leikara á aldrinum 20-30 ára til að finna hinn eina rétta í hlutverk Rómeós. Fjórtán leikurum var boðið í ítarlegar prufur fyrir hlutverkið en alls höfðu um 100 sótt um. Sturla Atlas var á endanum sá sem hreppti hnossið.

Sigurbjartur Sturla Atlasason, eða Sturla Atlas eins og hann er eflaust betur þekktur, hefur verið áberandi á undanförnum árum sem leikari en ekki síður sem einn vinsælasti tónlistarmaður landsins meðal ungs fólks. Hann var útnefndur bjartasta vonin á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2016 og hefur nýverið sent frá sér plötuna Paranoia sem hefur fengið frábærar viðtökur. Eftirminnileg eru hlutverk hans í Ófærð 2 og kvikmyndinni Lof mér að falla svo fátt eitt sé nefnt. Æfingar á Rómeó og Júlíu hefjast snemma á næsta ári en verkið verður frumsýnt í mars 2021.

Einvala hópur  listrænna stjórnenda við hlið Þorleifs

Þorleifur Örn Arnarsson hefur verið í hópi fremstu leikstjóra Íslendinga um árabil. Hann leikstýrði mörgum rómuðustu sýningum síðustu ára hér á landi, eins og Englum alheimsins og Njálu. Þá hefur hann notið mikillar velgengni í Evrópu og undanfarið verið einn stjórnenda hins virta leikhúss Volksbühne í Berlín. Nú í febrúar var tilkynnt um að Þorleifur gengi til liðs við Þjóðleikhúsið sem samningsbundinn leikstjóri og mun hann leikstýra einni sýningu árlega við húsið á næstu árum. Við hlið Þorleifs mun starfa einstaklega sterkur hópur listrænna stjórnenda. Ilmur Stefánsdóttir mun hanna leikmynd og Björn Bergsteinn Guðmundsson er ljósahönnuður. Þá hefur Kristján Ingimarsson verið ráðinn til sjá um kóreógrafíu í sýningunni en hann hefur vakið athygli hér á landi eiog víða um heim fyrir ævintýralegar sýningar og skemmst er að minnast BLAM sem sló í gegn hér fyrir nokkrum árum.

Ebba Katrín Finnsdóttir verður Júlía
Ebba Katrín Finnsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli síðan hún útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands fyrir tveimur árum. Hún sýndi framúrskarandi leik í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttaröðinni Mannasiðum á RÚV. Þá lék hún nokkur hlutverk á samningi í Borgarleikhúsinu í fyrra og á þessu leikári lék Ebba Katrín aðalhlutverkið, Uglu, í Atómstöðinni og burðarhlutverk í Þitt eigið leikrit II í Þjóðleikhúsinu.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími