19. Maí. 2020

150 umsóknir bárust vegna barnaleikrita

Leikrit eftir tvö ný leikskáld, Gunnar Eiríksson og Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur, valin

· Þjóðleikhúsið auglýsti eftir leikritum fyrir börn í lok febrúar
· 150 umsóknir bárust
· Leikrit eftir nýjan höfund, Gunnar Eiríksson, valið inn á næsta leikár
· Fyrsta leikrit Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur valið til þróunar
· Fleiri verk valin til áframhaldandi þróunar innan leikhússins

 

Þjóðleikhúsið vill efla starfsemi leikhússins í þágu barna og hvetja til ritunar nýrra, íslenskra barnaleikrita. Leikhúsið auglýsti í því skyni eftir nýjum leikritum fyrir börn í febrúar en það hefur ekki verið gert með þessum hætti áður. Mikill og óvæntur fjöldi umsókna barst, eða alls 150 umsóknir. Leikhúsið festi sér tvö verk, annars vegar leikrit eftir nýjan höfund, Gunnar Eiríksson, sem sýnt verður strax á næsta leikári, og hins vegar verk eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur sem verður þróað áfram innan leikhússins. Nokkur fleiri leikverk voru valin til nánari skoðunar og þróunar innan leikhússins. Nýja verkið eftir Gunnar Eiríksson bætist við glæsilega dagskrá fyrir börn á næsta leikári.

„Okkur þykir einstaklega vænt um þessi góðu viðbrögð við auglýsingu leikhússins eftir barnaleikritum“, segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, „enda viljum við leggja sérstaka áherslu á metnaðarfullt efni fyrir börn í Þjóðleikhúsinu.“

Þetta er í fyrsta skipti sem auglýst er eftir barnaleikritum með þessum hætti, og viðbrögðin létu sannarlega ekki á sér standa. Óskað var eftir handritum eða vel útfærðum hugmyndum, og alls bárust 150 umsóknir. Fjögurra manna nefnd, skipuð dramatúrgum og forstöðumanni barna- og fræðslustarfs leikhússins, las verkin, auk þess sem leikhússtjóri tók þátt í valinu. Egnersjóðurinn veitti stuðning til þess að auka við barnastarf leikhússins og efla skrif á nýjum, íslenskum barnaleikritum.

Þjóðleikhúsið vill kappkosta að eiga í virku samtali við höfunda, og gera leikhúsið opnara og aðgengilegra fyrir leikskáldin. Nú á liðnum mánuðum hefur í því skyni verið sérstaklega kallað eftir nýjum verkum af ólíku tagi, og má þar nefna að nú fyrir helgina rann út frestur til að skila inn verkum fyrir nýtt Hádegisleikhús Þjóðleikhússins. Viðbrögð höfunda við auglýsingum leikhússins eftir nýjum verkum hafa farið fram úr öllum vonum.

„Okkur bárust fjölmörg áhugaverð barnaleikrit og því var okkur mikill vandi á höndum að velja úr innsendum umsóknum,“ segir Magnús Geir. „Niðurstaðan varð sú að veðja strax á tvö leikrit. Annað er alveg frábært verk frá nýjum höfundi, fullbúið til sviðsetningar á litlu sviði, og hitt er drög að barnaleikriti fyrir Stóra sviðið, en þar er á ferðinni þekktur barnabókahöfundur sem skrifar nú sitt fyrsta leikrit fyrir svið. Auk þessara verka voru nokkur leikrit valin áfram til þróunar innan leikhússins, í samstarfi við höfundana.“

Þjóðleikhúsið mun sviðsetja strax á næsta leikári leikritið Kafbátur eftir Gunnar Eiríksson. Kafbátur er fyrsta leikrit Gunnars, en hann hefur starfað sem leikari í leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi í Noregi á liðnum árum, auk þess sem hann hefur samið tónlist fyrir leikhús. „Við urðum öll strax heilluð þegar við lásum þetta leikrit,“ segir Magnús Geir. „Verkið er í senn spennandi, hjartnæmt, ævintýralegt, fyndið og með fallegan boðskap, og býður upp á skemmtilega útfærslu í leikhúsinu“. Eins og nafnið bendir til gerist verkið um borð í kafbát, en þetta er ansi óvenjulegur kafbátur, fullur af skrýtnum og skemmtilegum uppfinningum, sem siglir um höfin í ókominni framtíð, með litla stelpu og föður hennar innanborðs. Á ferð með þeim er einnig áll, sem sér þeim fyrir rafmagni, auk þess sem fleiri litríkar persónur koma óvænt við sögu.

Hugmynd Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, að fjölskyldusöngleik byggðum á sagnaheimi hennar um Úlf og Eddu, þótti einnig einstaklega hrífandi, og ákveðið var að hefja strax vinnu við að þróa verkið fyrir Stóra sviðið. Kristín Ragna Gunnarsdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir bækur, myndskreytingar og barnasýningar byggðar á norrænum goðsögnum og hlotið margskonar verðlaun fyrir. Í hinum ævintýralegu og æsispennandi bókum sínum um stjúpsystkinin Úlf og Eddu nálgast höfundurinn menningararfinn á nýstárlegan og skemmtilegan hátt. „Leikverkið sem Kristín Ragna vill þróa upp úr þessum ævintýraheimi er sérlega spennandi,“ segir Magnús Geir, „og það má segja að það hafi komið okkur skemmtilega á óvart hvað þessi þekkti barnabókahöfundur, sem ekki hefur áður skrifað fyrir leiksvið, skrifar lifandi og litríkan leiktexta. Við hlökkum mikið til að takast á við þetta verkefni með Kristínu Rögnu, en við viljum gefa þessu stóra verkefni nægan tíma til að þróast í samstarfi við okkar leikhúslistafólk.“

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími