Þjóðleikhúsið hlýtur jafnlaunavottun
Þjóðleikhúsið hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85. Vottunin er staðfesting á því að jafnlaunakerfi Þjóðleikhússins stenst kröfur Jafnlaunastaðalsins og með jafnlaunavottuninni hefur Þjóðleikhúsið öðlast heimild Jafnréttisstofu að nota jafnlaunamerkið til næstu þriggja ára.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri tók við skírteini þessu til staðfestingar frá vottunarstofunni Icert ásamt hópi starfsfólks Þjóðleikhússins sem unnið hefur að vottunarferlinu.
„Þjóðleikhúsið á að vera leiðandi á sínu sviði og til fyrirmyndar í jafnréttismálum og því er jafnlaunavottun bæði mikilvægur áfangi og sjálfsagður hluti af starfsemi okkar. Ég er stoltur af þeirri vinnu sem unnin hefur verið hér innahúss til að byggja upp traust jafnlaunakerfi, sem gerir Þjóðleikhúsið að enn eftirsóknarverðari vinnustað til framtíðar.“
Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Jafnlaunastefna Þjóðleikhússins
Á ljósmynd, f.v. Tinna Lind Gunnarsdóttir skipulagsstjóri, Hrafnhildur Hagalín listrænn ráðunautur, Steinunn Þórhallsdóttir framkvæmdastjóri, Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, Steinunn Þorsteinsdóttir launafulltrúi, Guðmundur Sigurbergsson frá vottunarstofunni Icert, Björn Ingi Hilmarsson fræðslustjóri og jafnréttisfulltrúi, Melkorka Tekla Ólafsdóttir leiklistarráðunautur og fráfarandi jafnréttisfulltrúi og Aðalheiður Arna Rafnsdóttir fjármálastjóri.