25. Jún. 2020

Fjögur ný leikrit valin fyrir Hádegisleikhúsið

254 verk bárust í samkeppni Þjóðleikhússins og RÚV

  • Hádegisleikhúsið 2020

Alls bárust 254 verk í samkeppni Þjóðleikhússins og RÚV um verk fyrir nýtt hádegisleikhús. Auglýst var eftir handritum og hugmyndum að styttri verkum fyrir nýtt hádegisleikhús sem hefja mun göngu sína næsta haust. Dómnefnd hefur átt annríkt við að lesa verkin undanfarnar vikur. Fjögur verkanna hafa nú verið valin og verða á dagskrá á næsta leikári auk þess sem þau verða tekin upp fyrir sjónvarp og sýnd á RÚV. Þá voru þrjú verk til viðbótar valin til þróunar og verða á dagskrá Hádegisleikhúss Þjóðleikhússins leikárið 2021-22.

Þjóðleikhúsið og RÚV hleyptu af stokkunum nýju verkefni fyrr í vor og auglýstu eftir handritum eða ítarlegum hugmyndum að verkum, um 20-25 mínútur að lengd fyrir nýtt hádegisleikhús. Þátttaka íslenskra leikskálda var gríðarleg en alls bárust 254 verk frá 194 höfundum. Fjögur verkefni hafa nú verið valin til sýninga. Verkin verða frumsýnd í hinu nýja Hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins í Þjóðleikhúskjallaranum leikárið 2020-21 og í framhaldinu í Sunnudagsleikhúsi RÚV. Verkin sem voru valin eru eftir fjögur íslensk leikskáld, þau Bjarna Jónsson, Sólveigu Eir Stewart, Jón Gnarr og Hildi Selmu Sigbertsdóttur. Í dómnefndinni sátu þau Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Þorgerður E. Sigurðardóttir og Skarphéðinn Guðmundsson.

,,Við erum í skýjunum yfir þessari góðu þátttöku og viljum þakka öllum höfundum sem sendu okkur handrit kærlega fyrir, það eru spennandi tímar framundan hvað varðar íslenska leikritun í Þjóðleikhúsinu og sérstaklega skemmtilegt að leikritin verða líka tekin upp fyrir sjónvarp og sýnd á RÚV”, segir Hrafnhildur Hagalín. ,,Ég held að Hádegisleikhúsið geti orðið mjög skemmtileg viðbót við hin sviðin okkar og vonandi vettvangur til framtíðar fyrir íslensk leikskáld sem vilja reyna fyrir sér í styttra leikritunarformi. Við lentum eiginlega í lúxusvanda því stór hluti verkanna var verulega spennandi og við erum búin að festa okkur þrjú verk til viðbótar við þessi fjögur, sem fara upp á þarnæsta leikári Hádegisleikhússins. Það er verið að klassa upp Kjallarann og verður gaman að bjóða gestum að koma í hann nýuppgerðan. Hádegisleikhúsið tekur til starfa strax í haust og við gerum ráð fyrir að sýnt verði að minnsta kosti þrjú og stundum fjögur hádegi í viku. Tilvalið fyrir starfsmannahópa, pör eða bara hvern sem er að eiga stefnumót í hádeginu í Kjallaranum okkar, snæða léttan hádegisverð og horfa á splunkunýtt íslenskt stuttverk.“

Á meðfylgjandi mynd eru Hrafnhildur Hagalín dramatúrg, Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, Sólveig Eir Stewart höfundur, Jón Gnarr höfundur, Hildur Selma Sigbertsdóttir höfundur og Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími