29. Okt. 2018

Samþykki frumsýnt á Stóra sviðinu

Magnað nútímaverk sem sló í gegn í Breska þjóðleikhúsinu og var flutt á West End
  • Samþykki æfingamynd

Þjóðleikhúsið frumsýndi Samþykki eftir Ninu Raine á Stóra sviðinu um helgina, kraftmikið nýtt verk um sambönd, traust, ástarþrá og svik. Tvær leikkonur þreyta frumraun sína í Þjóðleikhúsinu í sýningunni.

 

Samþykki fékk frábærar viðtökur þegar verkið var frumsýnt í Breska þjóðleikhúsinu í apríl á síðasta ári, og í kjölfar mikilla vinsælda var sýningin flutt yfir á West End. Verkið, sem hefur hreyft við áhorfendum svo um munar, spyr knýjandi spurninga en gefur engin auðveld svör.

Hvers vegna er réttlætisgyðjan yfirleitt sýnd með bundið fyrir augun? Er hún óhlutdræg? Eða getur hún verið blind á tilteknar staðreyndir?

Samþykki er spennuþrungið nýtt leikrit, fullt af nístandi húmor. Í vinahópi nokkurra lögfræðinga eru skiptar skoðanir á umdeildu dómsmáli. Lykilvitnið er kona sem tilheyrir heimi sem virðist í órafjarlægð frá lífi vinanna. En brátt er mál þessarar ókunnugu konu farið að hafa ófyrirsjánlegar afleiðingar á samskipti þeirra og ástarsambönd. Hvernig getum við fengið fullvissu um hvað er satt og hvað logið? Hver er munurinn á hefndarþorsta og leit að réttlæti? Eru allir jafnir fyrir lögunum?

Leikstjóri sýningarinnar er Kristín Jóhannesdóttir, en nýjasta leikstjórnarverkefni hennar við Þjóðleikhúsið er Faðirinn, sem naut einstakra vinsælda leikhúsgesta.

Tvær reyndar leikkonur þreyta nú frumraun sína á sviði Þjóðleikhússins en það eru þær Kristín Þóra Haraldsdóttir og Arndís Hrönn Egilsdóttir.

Aðrir leikarar í sýningunni eru Hallgrímur Ólafsson, Snorri Engilbertsson, Birgitta Birgisdóttir, Stefán Hallur Stefánsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Leikmynd gerir Stígur Steinþórsson og búninga Þórunn María Jónsdóttir. Lýsingu hannar Halldór Örn Óskarsson. Úlfur Eldjárn sér um tónlist og Elvar Geir Sævarsson um hljóðmynd. Þýðing er eftir Þórarin Eldjárn.

Sjá nánar um sýninguna og skoða leikskrá hér.

Viðtal við Kristínu Jóhannesdóttur.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími