01. Nóv. 2018

Leikhúskonur bregða á leik í Kjallaranum

Fjallkonan fríð – frumsýning á laugardag

Leikhúslistakonur 50+ frumsýna í Leikhúskjallaranum sýninguna Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt? annað kvöld.

Það er við hæfi, nú á 100 ára afmæli fullveldis Íslands, að konur skoði hlut fjallkonunnar í sögulegu samhengi. Máti fjallkonuna við baráttu kvenna gegnum tíðina. Það verður slegið bæði á hátíðlegar og gamansamar nótur. Er fjallkonan einungis fríð eða getur hún haft hátt? Því verður svarað í sýningunni  í ljóði, með tónum og tali.

Leikhúslistakonur 50+ er félag leikhúslistakvenna 50 ára og eldri. Meðlimir félagsins eru um 60 talsins; leik- og söngkonur, dansarar, leikmynda- og búningahönnuðir, hárgreiðslu- og förðunarmeistarar, dramatúrgar, leikstjórar, leikskáld, sýningastjórar og konur sem unnið hafa hin ýmsu störf í leikhúsi.

Leikarar eru þær Halla Margrét Jóhannesdóttir, Helga Thorberg, Lilja Þórisdóttir, Margrét Rósa Einarsdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir, Salvör Aradóttir og Þórey Sigþórsdóttir. Leikgerðina gerði Helga Thorberg en leikstjóri er María Sigurðardóttir. Búninga gerir Helga Björnsson, en henni til aðstoðar er Rannveig Eva Karlsdóttir. Tónlistarstjóri og píanóleikari er Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Ásdís Magnúsdóttir sér um sviðshreyfingar.

Sýningin er styrkt af afmælisnefnd um 100 ára afmæli fullveldis Íslands og unnin í samvinnu við Þjóðleikhúsið.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími