29. Okt. 2018

Leikskrár Þjóðleikhússins öllum aðgengilegar

Rafrænar leikskrár á vef Þjóðleikhússins
  • Leikskrár

Nú í rúmt ár hefur Þjóðleikhúsið farið nýja leið í miðlun leikskrárefnis, en í stað prentaðrar leikskrár er nú hægt að nálgast leikskrárefni á vef Þjóðleikhússins. Þannig hefur Þjóðleikhúsið flutt leikskrár yfir í nýjan miðil sem býður upp á meiri fjölbreytni í framsetningu efnis, er umhverfisvænni og aðgengilegri öllu áhugafólki um leiklist en prentaðar leikskrár.

Í stað prentaðrar, seldrar leikskrár er nú boðið upp á 1) ókeypis sýningarskrá á einu blaði, með helstu upplýsingum, og 2) ítarlega leikskrá á vef leikhússins.

Í vefleikskrá er að finna ýmislegt efni sem ætla má að sé forvitnilegt og fræðandi fyrir leikhúsgesti, meðal annars greinar af ýmsu tagi, viðtöl, ítarlegar ferilskrár listamanna, söngtexta, tónlist og myndbönd. Einfalt er að finna leikskrár, en þær eru inni á síðu hverrar sýningar undir hnappnum SKOÐA LEIKSKRÁ.

Það er reynsla okkar í Þjóðleikhúsinu að á þeim tímum rafrænnar miðlunar sem við nú lifum nái leikskrár á rafrænu formi mun betur og til fleiri leikhúsgesta en leikskrár á prentformi. Í stað þess að leikhúsið prenti ákveðinn fjölda leikskráa, með tilheyrandi kostnaði og þyngri vistsporum, sem aðeins ná til þröngs hóps leikskrárkaupenda, dreifir nú leikhúsið efninu leikhúsgestum og öðru leikhúsáhugafólki að kostnaðarlausu á netinu, þannig að fólk getur kynnt sér leikskrárefni fyrir eða eftir sýningar að vild. Með þessu móti er efnið t.a.m. gert aðgengilegt skólafólki eða öðru áhugafólki um land allt, og ýmsum þeim sem ekki myndu annars kaupa sér leikskrá eða hafa ekki tök á því.

Þess ber að geta, að fyrir þá sem vilja hafa aðgang að leikskrárefni í leikhúsinu sjálfu höfum við komið upp nokkrum spjaldtölvum í gestarýmum þar sem rafrænar leikskrár standa öllum til boða, auk þess sem leikhúsgestum býðst ókeypis þráðlaus nettenging í leikhúsinu.

Þjóðleikhúsið er stolt af því að vera leiðandi á þessu sviði í íslensku leikhúslífi. Það er von okkar að allir þeir sem aðhyllast umhverfisvernd og það að auka aðgengi alls almennings að menningartengdu efni sjái kosti hinna nýju leikskráa. Rétt er að taka fram að af sömu ástæðum prentar Þjóðleikhúsið ekki viðamikinn ársbækling, heldur miðlar efni eftir rafrænum leiðum.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími