Rung læknir í Hljóðleikhúsinu í kvöld
Hljóðleikhús Þjóðleikhússins hóf göngu sína fyrir viku með beinni útsendingu á Skugga-Sveini og mæltist hún afar vel fyrir. Við höldum áfram að leita í gullkistu íslenskrar leikritunarsögu. Í kvöld kl. 20 verður flutt leikrit Jóhanns Sigurjónssonar Rung læknir, í leikstjórn Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur og þýðingu Bjarna Jónssonar. Hægt er að hlusta á Hljóðleikhúsið í beinni útsendingu á vef Þjóðleikhússins og Facebooksíðu, en flutningurinn er svo gerður aðgengilegur í Leikhúshlaðvarpinu.
Rung læknir var samið á dönsku árið 1905. Það fjallar um tilraunir Rungs læknis til að finna mótefni gegn berklum og um ástina í lífi hans. Verkið talar sterkt inn í samtímann nú þegar faraldur geisar og vísindamenn eru í óða önn við að þróa bóluefni. Rung læknir hefur aldrei verið sett upp á sviði hér á landi en er af mörgum talið með athyglisverðustu verkum Jóhanns Sigurjónssonar. Vigdís Hrefna Pálsdóttir er nýkomin heim úr meistaranámi í leikstjórn frá Bretlandi og leikstýrir hér sínu fyrsta verki. Leikendur eru Arnmundur Ernst B. Björnsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson og Hilmar Guðjónsson.