04. Nóv. 2020

Fjögur ný íslensk verk verða sett upp undir merkjum Þjóðleiks

Þjóðleikur er samstarfsverkefni Þjóðleikhúss og ýmissa aðila á landsbyggðinni og stuðlar að því að  glæða áhuga ungs fólks á leiklist og efla íslenska leikritun


Þjóðleikur
er verkefni á vegum Þjóðleikhússins, í samstarfi við ýmsa aðila á landsbyggðinni, sem hefur glætt leiklistaráhuga ungs fólks og eflt íslenska leikritun síðastliðin tólf ár. Íslensk leikskáld eru fengin til þess að skrifa leikrit sem hópar ungs fólks á landsbyggðinni setja upp. Verkefnið er tvíæringur og því lýkur með stórri uppskeruhátíð þar sem hóparnir hittast og sýna hverjir fyrir aðra.

Þjóðleiksverkefnið er stærra í ár en nokkru sinni fyrr en alls verða sett upp fjögur leikverk, í ólíkum uppsetningum víða um land. Einnig munu Þjóðleikhúsið og UngRÚV nú í fyrsta sinn vinna saman að því að skrásetja ferlið og miðla fréttum af uppsetningum hópanna. Menningarfélag Akureyrar hefur einnig gengið til liðs við verkefnið, og er það liður í viðameira samkomulagi Þjóðleikhússins og MAk sem var undirritað fyrr á þessu ári.

Leikverkin í ár eru einstaklega spennandi en höfundar eru Álfrún Örnólfsdóttir, Egill Andrason, Hildur Selma Sigbertsdóttir og Matthías Tryggvi Haraldsson.

Þjóðleikur var settur á laggirnar árið 2008 og nú tólf árum síðar hafa hátt í fjórða þúsund  ungmenni tekið þátt í uppsetningu á nýjum íslenskum leikverkum sem sérstaklega voru skrifuð fyrir verkefnið.  Annað hvert ár geta skólar á landsbyggðinni, áhugaleikfélög,  menningarráð eða sveitarfélög sótt um að taka þátt í Þjóðleiksverkefni. Leitað er til nokkurra íslenskra leikskálda og skrifuð eru ný verk sem henta vel stórum hópum sem vilja vinna að verkum í styttri kantinum. Meðgöngutími verkefna er tvö ár, þar sem fyrra árinu er varið í undirbúning en seinna árinu í uppsetningar.

Haldnar eru veglegar lokahátíðir að vori þar sem þátttakendur sameinast á stórum leiklistarhátíðum víðs vegar um landið, og um 30-40 leiksýningar eru frumsýndar.
Markmið Þjóðleikhússins með Þjóðleik er að tengjast á lifandi hátt ungu fólki á landsbyggðinni og efla þannig bæði áhuga þess og þekkingu á listforminu. Þjóðleikur er stórt og afar farsælt samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra menningarráða, grunn- og framhaldsskóla, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími