28. Okt. 2020

Þjóðleikhúsið býður börnum í leikhús á meðan almennt sýningarhald er takmarkað

Þjóðleikhúsið færir börnum jólaandann og býður á tvær leiksýningar. Grunnskólabörnum boðið á Leitina að jólunum og leikskólabörnum boðið á Ég get

Nú næstu vikur verður sýningarhald takmarkað í Þjóðleikhúsinu eins og öðrum sviðslistastofnunum. Þjóðleikhúsið nýtir tímann og galopnar dyrnar fyrir börnum og ungmennum sem geta notið leikhússins með skólum sínum. Sýnt verður á virkum dögum í nóvember og desember í nánu samráði við skólana og að sjálfsögðu með öllum ýtrustu varúðarráðstöfunum í samræmi við tilmæli yfirvalda.  

Aðventusýning Þjóðleikhússins Leitin að jólunum hefur notið mikilla vinsælda síðastliðin fimmtán ár, en nú er orðið ljóst að ekki getur orðið af hefðbundnu sýningarhaldi á þessari skemmtilegu sýningu vegna kórónuveirufaraldursins. Í stað þess að fella niður sýningar hefur Þjóðleikhúsið ákveðið að sníða sýninguna sérstaklega að grunnskólahópum, fjölga fyrirhuguðum sýningum umtalsvert og bjóða börnum í 2. bekk grunnskóla á sýninguna.  

Leitin að jólunum eftir Þorvald Þorsteinsson var frumsýnd á aðventunni 2005 og hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins. Sýningin hefur unnið sér sess sem ómissandi undirbúningur jólanna í hugum margra, og hefur nú verið sýnd fyrir fullu húsi í 15 ár. Sýningar eru orðnar yfir 370 talsins. Nú verður sýningin sýnd á virkum dögum fyrir grunnskólahópa.  

 Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar ásamt hljóðfæraleikara leiða börnin inn í ævintýraveröld jólanna, og þau sjá leikþætti um jólin í gamla daga og á okkar tímum. Sönglög Árna Egilssonar við Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum fléttast inn í ævintýrið. Leikstjóri sýningarinnar er Þórhallur Sigurðsson. Ýmsir leikarar hafa farið með hlutverk í Leitinni að jólunum frá upphafi, en að þessu sinni skipta með sér hlutverkum jólaálfanna þau Hallgrímur Ólafsson, Valgerður Guðnadóttir, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Karl Olgeir Olgeirsson spilar á harmonikku, og fleiri leikarar munu taka þátt í sýningunni. 

Elstu deildum leikskóla boðið á Ég get
Ég get er ljóðræn leiksýning, sem fjallar um það sem er mitt, þitt og okkar. Hér kynnumst við tveimur litlum manneskjum sem eru að æfa sig í því að vinna saman. Þær leika sér saman, prófa sig áfram og komast að því hvað gerist þegar forsendum í leiknum er breytt. Stórskemmtileg leikhúsupplifun fyrir börn sem eru að læra á heiminn en sýningin var tilnefnd til Grímuverðlauna árið 2018. Höfundur er Peter Engkvist, leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson og leikarar eru Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Þórey Birgisdóttir.

Þjóðleikhúsið hyggst bjóða upp á fleiri verkefni á næstu vikum meðan á samkomubanni stendur og verða þau kynnt bráðlega. Jafnframt standa yfir æfingar á nokkrum sýningum og starfsfólk leikhússins hlakkar til að geta hafið sýningar á nýjan leik á Kardemommubænum, Upphafi, Kópavogskróniku og Þínu eigin leikriti – Tímaferðalagi.   

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími