09. Nóv. 2021

Rauða Kápan – önnur frumsýning í Hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins

Fimmtudaginn 11. nóvember frumsýnir Þjóðleikhúsið Rauðu Kápuna eftir Sólveigu Eir Stewart. Þetta er jafnframt annað verkið sem sýnt er í nýju Hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins. Rauða Kápan er eitt fjögurra nýrra íslenskra verka sem verða frumsýnd í Hádegisleikhúsinu í vetur. En þar njóta gestir stuttrar leiksýningar og ljúffengrar súpu í hádeginu. Hver sýning tekur innan við hálftíma í flutningi.

 

Leikhúsgestir hafa tekið fagnandi á móti nýju Hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins. Sýningin Út að borða með Ester var frumsýnd í september en nú er komið að því að sýna annað nýtt íslenskt verk eftir splunkunýtt leikskáld, Sólveigu Eir Stewart. Rauða Kápan er hjartnæmt, skondið verk sem segir frá tveimur gjörólíkum konum sem mæla sér mót á veitingahúsi eftir að hafa tekið kápu hvor annarrar í misgripum nokkrum dögum áður. Þær komast að því að þær eiga kannski meira sameiginlegt en þær hafði grunað.

Leikarar eru þær Edda Björgvinsdóttir og Snæfríður Ingvarsdóttir en leikstjóri er Hilmar Guðjónsson. Aðrir höfundar sem eiga verk í Hádegisleikhúsinu í vetur eru þau Bjarni Jónsson, Jón Gnarr og Hildur Selma Sigbertsdóttir. Þjóðleikhúsið auglýsti árið 2020 eftir handritum og hugmyndum að styttri verkum fyrir hádegisleikhús. Þátttaka íslenskra leikskálda var gríðarlega góð en alls bárust 254 verk frá 194 höfundum. Verkin verða í framhaldinu tekin upp og sýnd í Sunnudagsleikhúsi RÚV.

KAUPA MIÐA
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími