11. Nóv. 2021

Fyndnustu mínar með sína ferskustu uppistandssýningu til þessa

Uppistandshópurinn Fyndnustu mínar frumsýnir Náttfatapartý í Kjallaranum 20. nóvember. Fyndnustu mínar skutu fyrst upp kollinum árið 2018 og urðu þær fljótlega þekktar fyrir einstakan uppistandsstíl og grín sem fjallar um veruleika ungra kvenna á hárbeittan hátt. Hópurinn hefur staðið fyrir vinsælum uppistandskvöldum á hinum ýmsu stöðum og selt upp sýningar sínar í Þjóðleikhússkjallaranum, Hard Rock og Tjarnarbíói.

Sýningaröðin Náttfatapartý er þeirra stærsta og glæsilegasta til þessa, enda hafa þær Lóa Björk Björnsdóttir, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Salka Gullbrá Þórarinsdóttir og Rebecca Lord legið í hýði á náttfötunum einum saman undanfarið eitt og hálft ár og samið sína allra bestu brandara!

Við tókum púlsinn á Sölku Gullbrá sem segir stelpurnar meira en tilbúnar í að stíga á svið, enda hafi þær aldrei hafa verið fyndnari og aldrei hafa litið betur út en nú:

Hver eru ykkar helstu umfjöllunarefni í gríni?
Svokallaðir kynferðismenn, múffur í kynlífsbúðum, virðingarríkt uppeldi og einhleyp ævintýri í Reykjavík eru meðal umfjöllunarefnanna í þetta sinn, en við gerum náttúrulega alltaf óspart grín að sjálfum okkur og almennum ákvarðanatökum í lífi okkar, sem eru misgáfulegar.

Hvað greinir ykkur frá öðrum uppistandshópum?
Ég vil meina að það að mæta á uppistand hjá Fyndnustu mínum sé eins og að fara á tveggja tíma trúnó inná baði með fyndnustu konum sem þú þekkir. Þú kemur út endurnærð/ur og með nýja sýn á lífið!

Eitthvað að lokum?
Við viljum sérstaklega benda konum sem eignast hafa börn á að það er hætta á því að þær pissi á sig á meðan á sýningu stendur. Nei veistu, reyndar vil ég bara beina því til allra sem koma óháð barneignum.

Náttfatapartý Fyndnustu minna verður sýnt í Kjallaranum frá 20.nóvember. Ekki missa af þessari grínsprengju – Miðasala er hafin!

KAUPA

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími