27. Nóv. 2023

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir – minning

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir  verður borin til grafar í dag. Útförin verður gerð frá Hallgrímskirkju kl. 13.

 

Kveðja frá Þjóðleikhúsinu:

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir  var fastráðin við Þjóðleikhúsið um árabil og lék fjölda hlutverka af öllu tagi við leikhúsið, enda einstaklega fjölhæf leikkona. Henni var jafn vel lagið að láta áhorfendur veltast um af hlátri í gamanleikjum og ná til hjarta þeirra í flóknum, dramatískum hlutverkum. En svo var hún líka góður félagi, og starfaði ötullega að félagsstörfum og hagsmunamálum leikara.

Ég naut þess oft að sjá Lilju Guðrúnu á leiksviði, en mín fyrsta persónulega minning um hana er þegar hún leiddi mig inn á sjálft Stóra svið Þjóðleikhússins sem barn í leiksýningunni Tyrkja-Guddu, jólasýningu hússins árið 1983, þar sem hún fór með hlutverk Tobbu, en ég var í barnahópnum ásamt Karen Maríu dóttur hennar. Þá kynntist ég þeirri hlýju og umhyggju sem Lilju Guðrúnu var svo vel gefið að veita fólkinu í kringum sig.   

Fyrsta hlutverk Lilju í Þjóðleikhúsinu var hlutverk Mörtu í Stundarfriði eftir Guðmund Steinsson árið 1979, en sú sýning sló eftirminnilega í gegn og ferðaðist víða á leiklistarhátíðir utan landsteinanna. Mörg önnur hlutverk Lilju Guðrúnar við Þjóðleikhúsið hafa orðið áhorfendum minnisstæð, og má þar nefna hlutverk Höllu í Fjalla-Eyvindi, Mörthu í Hver er hræddur við Virginíu Woolf?, Jórunni í Veghúsum í Húsi skáldsins, Sösju í Villihunangi, þá grænklæddu í Pétri Gaut, fóstruna í Rómeó og Júlíu, Ragnheiði í Hafinu, Agnesi í Dansað á haustvöku, Sue Bayliss í Allir synir mínir og Harriet í Glerbrotum. Lilja Guðrún tók þátt í frumuppfærslu margra nýrra íslenskra verka, og má þar m.a. nefna auk Mörtu í Stundarfriði Mörtu í Stakkaskiptum, Mörtu í Í hvítu myrkri og Vilborgu í Kaffi. 

Lilja Guðrún hafði sérstakt næmi fyrir gamanleik, og af slíkum hlutverkum má nefna Elise í Aurasálinni, Kristínu í Kjaftagangi og Þrúði í Tveimur tvöföldum. Lilja Guðrún skemmti líka fjölda ungra leikhúsgesta í hlutverki Soffíu frænku í Kardemommubænum, bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi og fleiri barnaleikritum, að ógleymdum einleik hennar á Búkollu sem hún sýndi fyrir ótölulegan fjölda leikskólabarna. Ótalin eru fjölmörg hlutverk Lilju Guðrúnar við Þjóðleikhúsið, í kvikmyndum, sjónvarpi og víðar, en hún hóf leikaraferil sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur strax eftir útskrift úr Leiklistarskóla Íslands árið 1978.  

Það var dýrmæt stund fyrir Lilju Guðrúnu og okkur í Þjóðleikhúsinu þegar hún heimsótti okkur við hátíðlega stund þann 1. desember fyrir tæpu ári ásamt fjölda annarra fyrrum starfsmanna leikhússins. Þá var hún kvödd sérstaklega og henni þakkað fyrir öll sínu góðu störf fyrir Þjóðleikhúsið. Þar var henni færður púði sem er gerður úr sama áklæði og er á sætum í stóra salnum. Ég mun seint gleyma hve fast og innilega hún faðmaði púðann og ást hennar á leikhúsinu skein í gegn. Ég veit að púðinn var oft við hlið hennar síðasta árið og efast ekki um að fram streymdu góðar tilfinningar og minningar.  

 Starfsfólk Þjóðleikhússins sendir fjölskyldu Lilju Guðrúnar innilegar samúðarkveðjur.  

 Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri


(Fjalla Eyvindur 1988)


(Fjalla Eyvindur 1988)
(Hver er hræddur við Virginu Woolf))

(Hver er hræddur við Virginu Woolf))

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími