24. Jan. 2023

Ex – annar hluti Mayenburg þríleiksins frumsýndur

Þjóðleikhúsið frumsýnir Ex, annan hlutann í þríleik eftir Marius von Mayenburg í leikstjórn Benedicts Andrews, laugardaginn 28. janúar á Stóra sviðinu. Skemmst er að minnast heimsfrumsýningar á Ellen B., fyrsta hluta þríleiksins, sem frumsýndur var á annan dag jóla og hefur fengið gríðarlegt lof áhorfenda og gagnrýnenda. Eftirvæntingin er því mikil eftir Ex.

Leikarar í sýningunni eru Nína Dögg Filippusdóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Listræna teymið er hið sama og í Ellen B., Benedict Andrews leikstýrir, Nina Wetzel hannar leikmynd og búninga, Björn Bergsteinn hannar lýsingu og Gísli Galdur er höfundur tónlistar. Í haust mun Mayenburg sjálfur leikstýra þriðja verki þríleiksins, Egal (Alveg sama).

Ex er flugbeitt sálfræðidrama og annað verkið í splunkunýjum þríleik Mariusar von Mayenburg sem verðlaunaleikstjórinn Benedict Andrews leikstýrir. Á fallegu heimili fyrirmyndarhjóna, arkítekts og læknis með tvö ung börn er bankað upp á um miðja nótt. Fyrir utan stendur fyrrverandi kærasta eiginmannsins og bráðvantar samastað eftir að hafa flutt út frá sambýlismanni sínum í miklum flýti. Fljótlega breytist heimilið í vígvöll þar sem ásakanir og uppljóstranir þjóta á milli eins og byssukúlur. Hvað dró þetta fólk hvert að öðru í upphafi?

Kaupa miða

Hvort skiptir meira máli í hjónabandi til lengdar, ástríðan eða sameiginleg markmið, lífssýn og samfélagsstaða? Af vægðarleysi og sótsvörtum húmor er tekist á við ágengar spurningar um hjónabandið, ástina og tærandi afbrýðisemi, lífsorkuna og lífsleiðann, fjölskylduna, kynlífið og ofbeldið í samböndum fólks.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími