16. Ágú. 2023

Ebba Katrín Finnsdóttir í leikriti sem fer sem eldur í sinu um heiminn

Þjóðleikhúsið mun frumsýna leikritið Orð gegn orði (Prima Facie) eftir Suzie Miller í nóvember í Kassanum. Ebba Katrín Finnsdóttir fer með hlutverk lögmanns sem hefur klifið hratt upp metorðastigann með framúrskarandi þekkingu á lagabókstafnum. Óyrirsjáanlegur atburður í einkalífi hennar verður þess að hún neyðist til að taka hugmyndir sínar og viðhorf til gagngerrar endurskoðunar.  Þóra Karítas Árnadóttir leikstýrir sýningunni. Uppsetning með bresku leikkonunni Jodie Comer hefur slegið í gegn beggja vegna Atlantsála og sópað að sér verðlaunum. Verkið er sýnt á West End og Broadway og framundan eru sýningar í mörgum fremstu leikhúsum heims, svo sem ITA leikhúsinu í Amsterdam.

Orð gegn orði (Prima Facie) er margverðlaunað, nýtt verk sem sló í gegn á West End og Broadway, eftir að hafa unnið til leikritunarverðlauna ástralska rithöfundasambandsins. Leikritið hlaut Olivier-verðlaunin árið 2023, auk þess sem sýningin hlaut fjölda tilnefninga til Olivier-verðlaunanna og Tony-verðlaunanna. Í verkinu er tekist á við ágengar spurningar um réttarkerfið, siðgæði, sekt og sönnunarbyrði. Hvaða vægi hafa tilfinningar og réttlætiskennd í flóknum málum, og hvenær er sekt nægilega sönnuð? 

Telma er ungur og metnaðarfullur lögmaður, hámenntuð og eitursnjöll, sem hefur tekist að klífa  hratt upp metorðastigann. Hún vinnur hvert málið á fætur öðru, með framúrskarandi þekkingu sinni á lagabókstafnum, ver sakborninga af fimi og prófar vitni með úthugsuðum spurningum. Skyndilega verður ófyrirsjáanlegur atburður í einkalífi hennar til þess að allt sem virtist svo borðleggjandi sýnist ekki eins einfalt og skýrt og áður, og hún neyðist til að taka hugmyndir sínar og viðhorf til gagngerrar endurskoðunar.   

Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína frá því að hún útskrifaðist af leikarabraut Listaháskólans árið 2018 og hrifið leikhúsgesti í hverju hlutverkinu á fætur öðru. Þóra Karítas Árnadóttir hefur átt velgengni að fagna sem leikkona, rithöfundur og leikstjóri á umliðnum árum en hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir síðustu uppsetningu sína sem gerði vel á Grímunni. Þetta er í fyrsta sinn sem Þóra leikstýrir sýningu hjá Þjóðleikhúsinu.

“KAUPA
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími