23. Ágú. 2023

Nýtt leikár Þjóðleikhússins er hafið

75. leikár Þjóðleikhússins er nú hafið en sýningar hefjast um næstu helgi á Draumaþjófnum. Boðið verður upp á nýtt áskriftarfyrirkomulag fyrir ungt fólk í anda Spotify og Storytel til viðbótar við hið hefðbundna áskriftarkort sem nýtur mikilla vinsælda. Af öðrum nýjungum má nefna að 7. sýning verka á Stóra sviðinu verður textuð á íslensku og ensku. Fræðslustarf er eflt og leikhúsið stendur fyrir leikferðum um land allt.

Nýtt og fjölbreytt leikár er nú að hefjast. Leikárið samanstendur af metnaðarfullum verkum sem takast á við fjölbreytileika lífsins, vináttuna, ástina og gleðina en fjalla líka um samskipti kynjanna, umhverfismálin og stríðsrekstur, svo fátt eitt sé nefnt. Stórar fjölskyldusýningar og glæný íslensk verk verða einnig á dagskrá, svo öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Framhald verður á vel heppnuðu erlendu samstarfi við margt fremsta leikhúslistafólk heims, t.d. með því að heimsfrumsýna síðasta hlutann í þríleik Mariusar von Mayenburg í leikstjórn hans sjálfs en fyrri hlutarnir tveir, Ellen B. og Ex., voru sigurvegarar Grímunnar í ár og fylltu Þjóðleikhúsið á vormánuðum. Öll verkin þrjú verða sýnd nú í haust.

Mútta Courage og börnin í uppsetningu Unu Þorleifsdóttur verður frumsýnt á Stóra sviðinu í október, Edda í uppsetningu Þorleifs Arnar verður jólasýningin og fjölskyldusýningin Frost í leikstjórn Gísla Arnar verður frumsýnd hér í byrjun mars, en uppfærsla hans á verkinu í Osló verður frumsýnd nú í haust. Eltum veðrið er sprúðlandi fyndin sýning flutt og samin af okkar fremstu gamanleikurum, Saknaðarilmur er nýtt leikrit eftir Unni Ösp sem er byggt á sögum Elísabetar Jökulsdóttur en sami hópur stendur að sýningunni og skapaði verðlaunasýninguna Vertu úlfur, og nú er það Björn Thors sem leikstýrir. Ebba Katrín mun leika eitt athyglisverðasta nýja leikrit samtímans, Orð gegn orði í leikstjórn Þóru Karítasar en Kolfinna Nikulásdóttir leikstýrir kraftmikilli uppsetningu á hinu goðsagnarkennda verki Söruh Kane, Ást Fedru. Á vordögum mun leikhópurinn Complicité sýna, í samstarfi við Þjóðleikhúsið og fleiri leiðandi leikhús í Evrópu, uppsetningu á Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Nóbelsverðlaunahafann Olgu Tocarczuk. Fjölmargar barnasýningar verða í boði á minni sviðum og í leikferðum en Draumaþjófurinn heillar áfram nú í haust.

Allar sýningar

Spennandi nýjungar fyrir ungmenni – áskriftir í anda Spotify og Storytel
Á þessu leikári verður boðið upp á glænýja áskriftarleið sem galopnar leikhúsið fyrir ungu fólki á aldrinum 15-25 ára.  Fyrir aðeins 1.450 kr. á mánuði geta ungmenni séð allar sýningar Þjóðleikhússins eins oft og hver og einn vill. Notendur þurfa ekki að bóka sig með löngum fyrirvara, því kortið gildir á sýningar samdægurs. Fyrirkomulagið er sambærilegt við það sem áskrifendur að Spotify, Storytel eða Netflix þekkja vel, og á svipuðu verði. Með þessu lækkar leikhúsið verðþröskuldinn sem oft hefur hindrað ungt fólk í að koma í leikhús og kynnir nútímalegt fyrirkomulag sem ungu fólki líkar.

Nánar um kort

Sjöunda hver sýning á Stóra sviðinu verður textuð á íslensku og ensku
Önnur spennandi nýjung er sú að 7. sýning hvers verks a Stóra sviðinu verður textuð á ensku og íslensku og þannig opnum við leikhúsið fyrir enn fleirum. Áfram er boðið upp á umræður að lokinni 6. sýningu.  Hefðbundin leikhúskort eru enn í boði en með þeim geta leikhúsgestir tryggt sér þrjár eða fleiri sýningar með 30% afslætti.

Fjölbreytt dagskrá verður í Kjallaranum sem hefur fest sig í sessi sem einstaklega áhugaverður vettvangur hópa sem hafa í gegnum söguna dansað á jaðrinum og blómstrað í reykmettuðum bakhúsum, á klúbbum og börum.

Aukinn kraftur í fræðslustarfi og nýr leikhússkóli í burðarliðnum
Í vetur verður boðið upp á metnaðarfulla fræðsludagskrá. Sem fyrr verður elstu bekkjum leikskóla boðið í leikhús og farið verður með sýningar víða um land, bæði sem skólasýningar og opnar sölusýningar. Nýr leikhússkóli fyrir ungt fólk verður kynntur á næstu vikum. Framhald verður á vel heppnuðu samstarfi við Endurmenntun um fróðleg og spennandi námskeið fyrir börn og fullorðna. Sýningin Ég get fer í leikferð um landið síðar í haust. Á alþjóðadegi fatlaðs fólks, þann 3. desember, verður haldin leikhúsveisla á Stóra sviði Þjóðleikhússins en það er jafnframt lokaviðburður hátíðahalda í tilefni tuttugu ára afmælis Listar án landamæra.

House of Revolution
Þjóðleikhúsið býður listafólki með ólíkan bakgrunn, úr ólíkum menningarkimum að láta ljóssitt skína í Kjallaranum. Á þessu leikári er það R.E.C. Arts Reykjavík sem sér um listræna stjórnun verkefnisins fyrir Þjóðleikhúsið.

26. ágúst
Draumaþjófurinn
eftir Björk Jakobsdóttur og Þorvald Bjarna Þorvaldsson
byggt á bók eftir Gunnar Helgason – leikstjórn: Stefán Jónsson
Sýnt á Stóra sviðinu

9. september
Ást Fedru
eftir Söruh Kane – leikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir
Sýnt í Kassanum

23. september
Ekki málið
eftir Marius von Mayenburg – leikstjórn: Marius von Mayenburg
Sýnt á Stóra sviðinu

28. september
Til hamingju með að vera mannleg
eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur – leikstjórn: Sigríður Soffía Níelsdóttir
Sýnt á Stóra sviðinu

20. október
Mútta Courage og börnin
eftir Bertholt Brecht – leikstjórn: Una Þorleifsdóttir
Sýnt á Stóra sviðinu

16. nóvember
Leyndarmál
unnið í samstarfi við ungmenni frá Reykjavík og Leeds– leikstjórn: Ásrún Magnúsdóttir
Sýnt á Litla sviðinu

17. nóvember
Orð gegn orði
eftir Suzie Miller – leikstjórn: Þóra Karítas Árnadóttir
Sýnt í Kassanum

25. nóvember
Lára og Ljónsi
Eftir Birgittu Haukdal og Góa– leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson
Sýnt á Litla Sviðinu

26. desember
Edda
handrit: Þorleifur Örn Arnarsson, Jón Magnús Arnarsson og Harpa Rún Kristjánsdóttir – leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson
Sýnt á Stóra sviðinu.

27. janúar
Saknaðarilmur
eftir Unni Ösp Stefánsdóttir – leikstjórn: Björn Thors
Sýnt í Kassanum

10. febrúar
Á eigin fótum
eftir Agnesi Wild og leikhópinn– leikstjórn: Agnes Wild
Sýnt á Litla sviðinu

1. mars
Frost
tónlist og söngtextar: Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez
handrit: Jennifer Lee – leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson
Sýnt á Stóra sviðinu

5. apríl
Eltum veðrið
handrit og leikstjórn: leikhópurinn
Sýnt á Stóra sviðinu

11. apríl
Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu
byggt á skáldsögu eftir Olga Tocarczuk
leikstjórn: Simon McBurney
Sýnt á Stóra sviðinu

19. apríl
Óperan hundrað þúsund
tónskáld Þórunn Gréta Sigurðardóttir
Librettó: Kristín Eiríksdóttir – leikstjórn: Kolfinna Nikulásdóttir
Sýnt í Kassanum

maí (dags. auglýst síðar)
Útskriftarsýning leikaranema
leikstjórn: Harpa Arnardóttir
Sýnt í Kassanum


Sýningar og viðburðir í Kjallaranum


9. september

Madame Tourette
eftir Elvu Dögg Hafberg Gunnarsdóttur – leikstjórn: Ágústa Skúladóttir

13. september
Improv Ísland
Spunasýningar

6. október
Kjallarakabarett
Margét Erla Maack stýrir sveittum föstudagssýningum

9. mars
Póst-Jón
Leikhópurinn Óður
eftir Adolphe Adam – leikstjórn: Tómas Helgi Baldursson

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími