05. Júl. 2023

Mútta Courage og börnin á svið Þjóðleikhússins í haust

Þjóðleikhúsið mun frumsýna verk Bertholts Brecht, Mútta Courage og börnin, á Stóra sviðinu í október. Mütter Courage, eins og verkið heitir á frummálinu, er í senn sótsvartur gamanleikur og magnþrungið ádeiluverk um eyðingarmátt stríðsins. Una Þorleifsdóttir leikstýrir en Bjarni Jónsson skrifar nýja þýðingu. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir mun leika aðalhlutverkið en alls taka tíu leikarar þátt í sýningunni. 

Mútta Courage og börnin er í senn sótsvartur gamanleikur og vægðarlaust ádeiluverk, og þetta magnþrungna leikrit Bertolts Brechts um eyðingarmátt stríðsins og sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna talar nú til okkar af endurnýjuðum krafti. Una Þorleifsdóttir nálgast efniviðinn á nútímalegan, litríkan og húmorískan hátt og í sýningunni mun hljóma ný tónlist eftir Valgeir Sigurðsson og Helga Hrafn Jónsson.

Leikritið fjallar um ólíkindatólið Múttu Courage sem ferðast um í stríðshrjáðri Evrópu með söluvagn sinn. Hún hefur lifibrauð sitt af því að selja hernum varning og einsetur sér að komast af ásamt stálpuðum börnum sínum þremur. Mútta Courage er hörkutól, kjaftfor og fyndin, sölumaður af guðs náð, en sú spurning verður sífellt ágengari hver sé í rauninni að græða.

Allt frá því að verkið var frumflutt hafa áhorfendur víðs vegar um heim hlegið og grátið með Múttu Courage, sem hlýtur að teljast ein magnaðasta kvenpersóna leikbókmenntanna. Verkið birtist okkur nú í glænýrri gerð sem kemur skemmtilega á óvart.

Leikarar: Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Guðrún S. Gísladóttir, Hildur Vala Baldursdóttir, Hilmar Guðjónsson, Oddur Júlíusson, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir.

Listrænir stjórnendur
Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir
Þýðing: Bjarni Jónsson
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Tónlist: Valgeir Sigurðsson og Helgi Hrafn Jónsson
Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Myndband: Ásta Jónína Arnardóttir
Hljóðhönnun: Þóroddur Ingvarsson

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími