30. Jún. 2023

Þjóðleikhúsið leitar að sögum úr útilegum fyrir nýtt íslenskt gamanleikrit, Eltum veðrið

Þjóðleikhúsið mun frumsýna nýtt íslenskt gamanleikrit, Eltum veðrið, í mars á næsta ári. Verkið fjallar um þann séríslenska sið að elta góða veðrið til að njóta lífsins í útilegum og á ferð um landið. Kallað er eftir reynslusögum frá almenningi og öll þau sem eiga skemmtilegar, skrítnar eða skelfilegar minningar úr útilegum eru hvött til þess að deila sögunum með leikhópnum. 


Leikarar úr leikhópi Þjóðleikhússins fengu frjálsar hendur til að skapa nýja  gleðisýningu og niðurstaðan varð sú að gera það sem við Íslendingar erum sérfræðingar í: Að elta veðrið! Leikhópurinn er að þróa, skrifa og spinna nýja sýningu um þessa eilífu þrá okkar eftir að komast burt, stinga af, njóta lífsins og finna hamingjuna í tjaldi, hjólhýsi, tjaldvagni eða grænni lautu.

Átt þú skemmtilega sögu?

Sýningin verður að hluta til byggð á ótal reynslusögum úr ýmsum áttum af útilegum á Íslandi og leitað er að skemmtilegu, skrýtnu eða bara æðislegu efni úr útilegum? Ljósmyndum, myndbandsbrotum eða sögum? Þau sem vilja eru hvött til að senda  eltumvedrid@leikhusid.is!
Þau sem senda athyglisverðustu sögurnar fá boðsmiða á forsýningar.

Hefur þú einhvern tímann reynt að tjalda? Gleymt tjaldhælunum? Eða því hvaða tjaldsúla á að vera hvar? Verið með allt tilbúið á grillið en gaskúturinn er tómur? Skilið tengdamömmuboxið eftir opið og brunað af stað? Vaknað í rennblautu tjaldi, á lekri vindsæng? Opnað myglaðan svefnpoka? Heyrt ókennileg hljóð úr næsta tjaldi? Sofnað í tjaldi en vaknað í húsbíl? Ákveðið að skilja við maka þinn eftir útilegu? Langað til að skipta um ríkisfang eftir verslunarmannahelgi? Uppgötvað að þú sért kannski meira fyrir hótel þegar upp er staðið? Eða kannski kynnst æðislegu fólki á tjaldstæðinu? Og fundið þitt innra sjálf innan um mosann, sóleyjarnar og blágresið? Þá er þetta sýning fyrir þig!

Hér er tekist á við list leikarans og samband hans við áhorfendur af hugmyndaauðgi, fjöri og hæfilegu kæruleysi, um leið og þjóðarsálin er krufin. Sannkölluð gleðisýning, þróuð og skrifuð af leikhópi Þjóðleikhússins!

Leikhópur: Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími