27. Jún. 2023

Hrafnhildur Hagalín snýr sér að skrifum að nýju og lætur af störfum sem listrænn ráðunautur

Hrafnhildur Hagalín, sem hefur starfað sem listrænn ráðunautur við Þjóðleikhúsið frá upphafi ársins 2020, hefur sagt starfi sínu lausu til þess að helga sig ritstörfum á nýjan leik. Eitt af hennar fyrstu verkefnum eftir að hún lætur af störfum  sem listrænn ráðunautur verður að skrifa leikrit fyrir Þjóðleikhúsið. Starf listræns ráðunautar er auglýst laust til umsóknar og ráðið verður í starfið frá og með 1. nóvember þegar Hrafnhildur lætur af störfum. 

Hrafnhildur Hagalín

Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri þakkar Hrafnhildi frábær störf í þágu leikhússins: „Við erum Hrafnhildi afar þakklát fyrir hennar mikilvæga framlag til Þjóðleikhússins en hún hefur verið í hópi lykilfólks sem hefur tekið þátt í breytingaferli leikhússins og stefnumótun frá árinu 2020 og hefur verið afar dýrmæt við listræna stjórn leikhússins á tímum mikilla breytinga og fjölda listrænna sigra frá þeim tíma. Þó það sé sannarlega eftirsjá af Hrafnhildi úr þessu starfi, þá fögnum við því að eitt besta leikskáld landsins setjist nú aftur við skriftir og að eitt fyrsta verkefni hennar verði leikrit fyrir Þjóðleikhúsið. Við hlökkum til samstarfs við Hrafnhildi á þeim vettvangi.“  

Hrafnhildur Hagalín, listrænn ráðunautur: „ Ég mun kveðja starfið mitt og allt frábæra samstarfsfólkið mitt í Þjóðleikhúsinu með miklum söknuði – þetta hafa verið fjögur mögnuð ár. Magnúsi Geir vil ég þakka okkar einstaka samstarf, það hefur verið heiður að starfa náið með svo flinkum stjórnanda og leikhúsmanni. Þjóðleikhúsið stendur afar sterkt um þessar mundir og er í miklum blóma og það er góð tilfinning að kveðja á slíkum tímapunkti. Breytingar eru af hinu góða og það verður spennandi fyrir Þjóðleikhúsið að ráða til sín nýjan, öflugan liðsmann. Ég hlakka til ótal verkefna sem bíða mín og til að starfa áfram með félögum mínum í leikhúsinu í öðru samhengi á komandi árum. 

Í auglýsingu sem birt hefur verið um starfið kemur m.a. fram að Þjóðleikhúsið leiti að „hugmyndaríkum og metnaðarfullum  einstaklingi sem hefur áhuga á að ganga til liðs við listrænt teymi leikhússins, auðga það og efla. Listrænn ráðunautur er hluti af listrænu teymi Þjóðleikhússins sem heyrir undir og  vinnur náið með leikhússtjóra að listrænni stjórnun leikhússins. Viðkomandi tekur þátt í verkefnavali leikhússins og stefnumótun, sinnir listrænni ráðgjöf, höfundastarfi, og stýringu ýmiskonar verkefna.“  

Auglýsinguna má finna á Starfatorgi og er umsóknarfrestur til 4. ágúst n.k.

Skoða starf
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími