20. Maí. 2025

Birta Sólveig mun fara með stjörnuhlutverk Línu Langsokks


Lína Langsokkur verður frumsýnd á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 13. september næstkomandi. Það hefur ríkt mikil spenna yfir því hver færi með hlutverk Línu. Í dag var það tilkynnt að nýjasta Línan yrði
Birta Sólveig Söring Þórisdóttir. Hún bætist í hóp þeirra sem þegar hafa skinið skært í hlutverkinu í fyrri uppsetningum. Stórleikkonurnar Sigrún Edda Björnsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir og Ágústa Eva Erlendsdóttir hafa farið með hlutverk Línu í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu.
 
Eldri Línur komu saman til þess að bjóða Birtu velkomna í hópinn og það var eðlilega glatt á hjalla þegar þessi skemmtilegi hópur kom saman. 

 

80 ára afmælisbarnið ber aldurinn vel

Lína Langsokkur er meðal ástsælustu barnabóka hins vestræna heims og hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal barna á Íslandi. Enda er Lína óborganlega skemmtileg og uppátækjasöm en sagan er einnig mannleg og falleg. Lína Langsokkur þykir frábær fyrirmynd – en nú eftir rúma viku verður því fagnað víða um heim að 80 ár eru liðin síðan þessi ástsæla persóna Astrid Lindgren leit dagsins ljós.

Birta Sólveig Söring Þórisdóttir útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands í fyrra og lauk áður diplómanámi í söng við Complete Vocal Institute í Danmörku. Hún þreytti frumraun sína í Þjóðleikhúsinu í söngleiknum Stormi og lék Auði í Litlu hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar. Birta hefur einnig tekið við hlutverkum í sýningunum Yermu og Frosti fyrr í vetur.

Þar sem fimm Línur koma saman – þar er gaman!

Sýningin verður gríðarlegt sjónarspil

Sýningin um Línu Langsokk verður heljarinnar sjónarspil sem mun henta breiðum aldurshópi. Agnes Wild er leikstjóri sýningarinnar en hún hefur vakið mikla athygli fyrir frábærar barnasýningar. Karl Olgeirsson verður tónlistarstjóri en skemmst er að minnast einstakra útsetninga hans á lögunum í Kardemommubænum fyrir skemmstu, reynsluboltinn Finnur Arnar hannar leikmynd og Eva Björg Harðardóttir er búningahöfundur. Þórarinn Eldjárn er þýðandi verksins. 

Nú geta allir farið að hlakka til að kíkja inn á Sjónarhól í Þjóðleikhúsinu í haust.

Nánar um sýninguna

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími