/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Elísabet Jökulsdóttir

/

Þjóðleikhúsið sýnir Saknaðarilm, leikverk eftir Unni Ösp Stefánsdóttur, sem byggt er á samnefndu verki eftir Elísabetu Jökulsdóttur, og fleiri verkum hennar.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir er fædd í Reykjavík 16. apríl 1958. Hún hefur sent frá sér 27 bækur og samið 20 leikrit af ýmsu tagi. Hún ólst upp á Seltjarnarnesi og í Reykjavík og dvaldi í eitt ár í Grikklandi sem barn. Elísabet lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1987 og hefur stundað söngnám, sótt námskeið í handritaskrifum hjá Kvikmyndasjóði og tekið þátt í Höfundasmiðju Leikfélags Reykjavíkur. Hún útskrifaðist með BA-próf í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Elísabet hefur unnið ýmis störf til sjós og lands, afgreiðslustörf, verið módel hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur, stundað byggingarvinnu, unnið í frystihúsum, verið háseti á bát og ráðskona á Ströndum. Einnig hefur hún verið blaðamaður, unnið þætti fyrir útvarp, verið aðstoðarleikstjóri í Þjóðleikhúsinu og haldið fyrirlestra um örsöguskrif í framhaldsskólum. Elísabet er aktívisti og náttúruverndarsinni. Árið 2016 bauð Elísabet sig fram til forseta Íslands og gladdi marga með framgöngu sinni í kosningabaráttunni. Elísabet á þrjá uppkomna syni. Hún býr í Hveragerði.

Fyrsta bók Elísabetar, ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi, kom út árið 1989 og síðan hefur hún sent frá sér fjölda bóka: ljóð, sögur og skáldsögur. Hún hefur einnig skrifað fjölda leikrita sem sett hafa verið upp hér á landi og erlendis og framið ýmsa gjörninga sem hafa meðal annars birst í Ríkissjónvarpinu. Ljóð hennar hafa birst í safnbókum og tímaritum hér heima og erlendis.

Leikverkið Saknaðarilmur er einkum byggt á bókum Elísabetar Saknaðarilmi, sem kom út árið 2022, og Aprílsólarkulda (eitthvað alveg sérstakt), sem kom út árið 2020, en einnig öðrum verkum hennar. Aprílsólarkuldi hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Elísabet hlaut Fjöruverðlaunin fyrir Enginn dans við Ufsaklett: Ástin ein taugahrúga og Heilræði lásasmiðsins. Meðal leikrita Elísabetar eru Haukur og Lilja sem sýnt var í Ásmundarsal og flutt í Útvarpsleikhúsinu, Blóðuga kanínan sem Fimbulvetur setti upp í samstarfi við Murmur í Tjarnarbíói og Eldhestur á ís sem sýnt var í Borgarleikhúsinu.

Sjá nánar á skald.is

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími