Mayenburg-hátíð í október og nóvember
Í kjölfar verðlaunaverkanna Ellen B. og Ex. kemur Ekki málið, þriðji og síðasti hluti þríleiksins. Þjóðleikhúsið efnir til Mayenburg hátíðar í október og nóvember og sýnir öll verkin. Fyrir þau sem vilja er boðið upp á Mayenburg-maraþon laugardaginn 28. október, en þá eru allar sýningarnar sýndar á einum degi. Fram að maraþondeginum verður boðið upp á þétta sýningadagskrá á Ekki málið en í kjölfarið stakar sýningar á eftirfarandi dögum á fyrri verkunum tveimur.
Tryggðu þér miða á allar sýningarnar með 40% afslætti!
Kaupa miðaEllen B.
Unnur Ösp Stefánsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Benedikt Erlingsson fara með hlutverk þriggja persóna sem hittast eina kvöldstund í heimahúsi. Samskiptin snúast fljótt upp í martraðarkennda viðureign, með grimmilegum ásökunum á báða bóga, þar sem enginn er óhultur og sannleikurinn smýgur stöðugt undan. Undir liggja ágengar spurningar um valdajafnvægi og trúnaðartraust í nánum samböndum, mörkin milli atvinnu og einkalífs, lygina og sannleikann – og ásakanir, hvort sem þær eru falskar eða sannar, eða málin flóknari en svo.
Nánar um sýninguEx.
Á fallegu heimili fyrirmyndarhjóna, arkítekts og læknis með tvö ung börn er bankað upp á um miðja nótt. Fyrir utan stendur fyrrverandi kærasta eiginmannsins og bráðvantar samastað eftir að hafa flutt út frá sambýlismanni sínum í miklum flýti. Fljótlega breytist heimilið í vígvöll þar sem ásakanir og uppljóstranir þjóta á milli eins og byssukúlur. Hvað dró þetta fólk hvert að öðru í upphafi?
Nánar um sýninguEkki málið
Simone er rafeindavélfræðingur, nýkomin heim úr viðskiptaferð til Ítalíu með yfirmanni sínum. Hún er með gjöf handa eiginmanni sínum, Erik, sem hefur að vanda sinnt búi og börnum á meðan hún hefur verið í burtu og reynt þess á milli að einbeita sér að þýðingum sínum fyrir bókaforlagið sem hann vinnur hjá. Erik hikar við að opna pakkann. Er kannski eitthvað annað sem fylgir þessari gjöf? En hvað ef það væri Erik sem væri að koma heim úr viðskiptaferð og Simone hefði verið heima að sinna fjölskyldulífinu? Væri þá eitthvað á annan veg?
Nánar um sýningu