Vala Kristín og Hildur Vala eru Elsa og Anna í stórsöngleiknum Frosti
Stórsöngleikurinn Frost verður frumsýndur í Þjóðleikhúsinu í mars. Nú hefur það verið opinberað að þær Vala Kristín Eiríksdóttir og Hildur Vala Baldursdóttir munu fara með hlutverk systranna Elsu og Önnu. Það verður mikið um dýrðir og öllu tjaldað til þegar þetta gríðarvinsæla ævintýri verður frumsýnt á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Forsala hefst miðvikudaginn 4. október og fyrstu þrjá daga forsölunnar verður hægt að kaupa miða með 1.000 kr. forsöluafslætti.
Leikprufur fyrir 8 – 11 ára stelpur. Við leitum að Elsu yngri og Önnu yngri
Í tengslum við sýninguna mun Þjóðleikhúsið halda rafrænar leikprufur. Leitað er að stúlkum (fæddum 2012-2015) til að leika Önnu yngri og Elsu yngri í stórsöngleiknum Frosti. Allar upplýsingar um prufurnar má finna á leikhusid.is. Síðasti skiladagur á prufum er sunnudagur 15. október!
Allt um prufurnar
Miðvikudaginn 4. október kl. 10 hefst forsala
Söngleikurinn Frost er byggður á hinni ástsælu Disneyteiknimynd Frozen og hefur notið mikilla vinsælda á Broadway, West End í London og víðar. Þetta hrífandi ævintýri birtist okkur nú í nýrri uppfærslu Gísla Arnar, þar sem einstakt vald hans á töfrum leikhússins nýtur sín til fulls, líkt og í geysivinsælum sýningum hans á borð við Í hjarta Hróa hattar og Rómeó og Júlíu. Sagan er innblásin af Snædrottningunni eftir sagnameistarann H.C. Andersen, og á þannig uppruna sinn á Norðurlöndum, en Gísli Örn mun setja sýninguna upp víða um Norðurlönd.
Með önnur hlutverk í sýningunni fara m.a.: Guðjón Davíð Karlsson, sem mun jafnframt fara með hlutverk snjókarlsins Ólafs, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Örn Árnason, Almar Blær Sigurjónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Ernesto Camilo Valdés, Kjartan Darri Kristjánsson, Sigurbjartur Sturla Atlason og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.
Stórbrotin tónlistaratriði og bráðskemmtilegar persónur í nýjum söngleik þar sem þekkt og vinsæl lög hljóma í bland við fjölmörg ný lög sem eru samin sérstaklega fyrir söngleikinn. Frost er sýnt í samstarfi við Vesturport, Det Norske Teatret í Osló, Borgarleikhúsið í Stokkhólmi, Borgarleikhúsið í Helsinki og fleiri leikhús á Norðurlöndum. Sýnt með leyfi Disney Theatrical Productions.
Nánar um Frost