18. Feb. 2020

Útsending – frumsýning á föstudaginn

Kraftmikið verk sem sló nýlega í gegn í London og New York með Bryan Cranston í aðalhlutverki. Fréttamaður missir tökin í beinni útsendingu – og áhorfið rýkur upp. Leikhús og sjónvarp mætast á einstakan hátt í tímalausri og hrífandi sögu um fjölmiðla og mannlega harmleiki.

Þjóðleikhúsið frumsýnir Útsendingu á Stóra sviðinu í leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar föstudaginn 21. febrúar. Hér er á ferðinni magnað verk um átök innan fjölmiðlaheimsins og vald fjölmiðlanna. Fréttamaðurinn Howard Beale kemst að því að taka eigi þátt hans af dagskrá og tilkynnir áhorfendum að hann muni þess vegna svipta sig lífi í beinni útsendingu eftir viku. Yfirmenn sjónvarpsstöðvakeðjunnar vilja hann strax í burtu en verða tvístígandi þegar áhorfið á þáttinn eykst.

Hér mætast leikhús og sjónvarp á alveg glænýjan hátt. Áhorfendur mega eiga von á magnaðri tæknilegri umgjörð um áhrifamikið og sláandi verk. Hvenær eru fréttastofur frjálsar frá eigendum sínum og hversu langt getur sjónvarpsstöð gengið til að auka áhorf sitt? Hvað öfl eru það sem fara á kreik þegar skyndilega kemur fram nútímaspámaður sem heillar milljónir?

Sýning Breska þjóðleikhússins, sem var á fjölunum bæði í London (2017-18) og New York (2018-19), sló rækilega í gegn og var tilnefnd til fjölda verðlauna. Bryan Cranston hlaut fimm virt leiklistarverðlaun fyrir leik sinn í aðalhlutverkinu, meðal annars Laurence Olivier og Tony verðlaunin. Leikverk Lee Halls er byggt á handriti Óskarsverðlaunamyndarinnar Network eftir Paddy Chayefsky.

Guðjón Davíð Karlsson er landsmönnum að góðu kunnur sem einn af okkar fremstu leikurum, auk þess sem hann hefur samið leikrit, leikstýrt og unnið margvíslegt efni fyrir sjónvarp. Hann tekst nú á við annað stóra leikstjórnarverkefni sitt á Stóra sviðinu, en áður leikstýrði hann söngleiknum Slá í gegn, sem stóð sannarlega undir nafni og gekk fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu tvö leikár í röð.

Pálmi Gestsson tekst á við hlutverk Howards Beale, fréttamannsins sem sagt er upp störfum og missir tökin á raunveruleikanum í kjölfarið.

Egil Eðvarðsson má sannarlega kalla konung sjónvarpsframleiðslunnar á Íslandi og var það einstakur fengur að fá hann til að halda utan um útlit sýningarinnar, þar sem leikhús og sjónvarp mætast með mögnuðum hætti.

Í leikmynd verksins er meðal annars að finna tæknilega fullkomið myndver. Á sviðinu eru ríflega 30 skjáir, sex myndavélar, mixer og afspilunarkerfi. Allt er þetta hluti af leikmyndinni en jafnframt nýtt í verkinu þannig að áhorfendur sjá nærmyndir af leikurum.
Tæknibúnaðurinn er það fullkominn að hægt er að senda út beint frá Þjóðleikhúsinu án mikillar fyrirhafnar.

Nánari upplýsingar um verkið

Boðið verður upp á 20 mín. umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á verkinu.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími