14. Feb. 2020

Barnasýningar í Þjóðleikhúsinu vegna verkfalls

Þjóðleikhúsið hefur ákveðið að bregðast hratt við vegna fyrirhugaðs verkfalls starfsfólks leikskóla í Reykjavík og bjóða upp á leiksýningar fyrir yngstu börnin á virkum dögum.

„Auðvitað vonum við að þessi deila leysist sem allra fyrst,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, „en við ákváðum að vera tilbúin ef til verkfalls kemur, og bjóða upp á sýningar fyrir börn með lækkuðu miðaverði. Það getur verið dýrmætt að fá tækifæri til að gera eitthvað óvenjulegt og skemmtilegt með börnunum á svona tímum, og því ákváðum við að taka til sýninga eina af barnasýningunum okkar, Ómar Orðabelg. Sýnt verður í Kúlunni kl. 13:00 alla næstu viku, frá og með þriðjudegi, ef af verkfalli verður. Vegna aðstæðna lækkum við miðaverð og kostar miðinn aðeins 1.000 kr.“

Ómar Orðabelgur er nýtt, íslenskt barnaleikrit eftir Gunnar Smára Jóhannesson í leikstjórn Björns Inga Hilmarssonar, sem Þjóðleikhúsið sýndi síðastliðið haust. Í sýningunni sláumst við í för með Ómari Orðabelg í leit að uppruna orðanna. Hvaðan kemur orðið fíll? Afhverju segjum við fægiskófla? Er appelsína epli frá Kína? Ómar Orðabelgur ferðast um heim orðanna og kynnist allskonar skrýtnum orðum, en eitt orð mun hann kannski aldrei skilja til fulls. Dauðinn. Hvað er að deyja? Dauðinn er orð sem allir þekkja en veit einhver hvað það þýðir í raun?

Ómar Orðabelgur er í senn hjartnæm, fyndin og fjörug sýning, sem tekur um 40 mínútur í flutningi.   Sem fyrr segir munu sýningar hefjast þriðjudaginn 18. febrúar kl. 13, ef að verkfallsaðgerðir standa enn. Ef deilan leysist verða sýningar felldar niður, og gestir fá ónotaða miða endurgreidda eða geta nýtt þá sem inneign á aðrar sýningar á tíma sem hentar. Áhugasamir geta nálgast nánari upplýsingar á vef Þjóðleikhússins, leikhusid.is.

KAUPA MIÐA

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími