14. Maí. 2021

Þjóðleikhúsið sýnir verk eftir Caryl Churchill í fyrsta sinn

Í fyrsta sinn setur Þjóðleikhúsið upp leikrit eftir Caryl Churchill, eitt virtasta leikskáld Bretlands, og munu margir fagna því. Churchill (f. 1938) er í hópi framsæknustu leikskálda samtímans, og er hún ekki síst þekkt fyrir afar áhugaverðar tilraunir með form og innihald. Þýðandi er Auður Ava Ólafsdóttir og leikstjóri er Una Þorleifsdóttir, sem hefur tvívegis hlotið Grímuverðlaunin sem leikstjóri ársins.

Caryl Churchill er eitt þekktasta og áhrifamesta leikskáld Breta og það er sannkallaður viðburður að verk eftir hana sé sýnt í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn. Framúrskarandi hópur listamanna stendur að sýningunni á þessu áleitna samtímaverki, Ást og upplýsingar.

Í verkinu Ást og upplýsingar, sem hlaut mikið lof þegar það var frumflutt í Royal Court leikhúsinu í London árið 2012, kryfur Caryl Churchill samtíma okkar af óvægni. Hún skoðar með skemmtilegum og frumlegum hætti hina djúpstæðu löngun okkar til að upplifa nánd og vera elskuð, í heimi sem oft og tíðum virðist einmitt koma í veg fyrir einingu. Brugðið er upp skörpum skyndimyndum af mannlífinu, í hjartnæmu, tragísku og fyndnu verki.

Churchill hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, sem gjarnan fjalla um áleitin viðfangsefni úr samtímanum, femínísk málefni, kynjapólitík, vald og misbeitingu þess. Verk hennar hafa verið sett upp í öllum helstu leikhúsum Bretlands og víða um heim.

Verkið verður frumsýnt í Kassanum í febrúar 2022, og munu sjö leikarar taka þátt í sýningunni.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími