14. Apr. 2023

Þjóðleikhúsið kaupir verk eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur sem Ilmur Stefánsdóttir mun leikstýra

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir og Ilmur Stefánsdóttir vinna nú að þróun nýs leikverks sem Þjóðleikhúsið hefur keypt af Kolbrúnu og frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu haustið 2024. Ilmur Stefánsdóttir mun leikstýra en Kolbrún mun leika í sýningunni ásamt Þuríði Blævi Jóhannsdóttur.

Vinnuheiti verksins er Taktu flugið, beibí! en þar er fjallað um hlaup og klifur, áskoranir og sigra og byggir Kolbrún verkið á lífsreynslu sinni að fatlast á unglingsaldri. Tónlist, myndlist og dansi er fléttað saman við ljóðræna frásögn. Sýningin verður frumsýnd í Kassanum haustið 2024.

Kolbrún Dögg er sviðshöfundur, hefur tekið þátt í uppistandi og framið ýmsa gjörninga. Hún lauk námi af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands árið 2021 og stundar nú meistaranám í ritlist. Taktu flugið, beibí! er fyrsta leikverk hennar sem sett er á svið í atvinnuleikhúsi. Ilmur Stefánsdóttir þreytir nú frumraun sína sem leikstjóri, en hún er einn fremsti leikmyndahönnuður landsins og hefur tekið þátt í sköpun fjölda leiksýninga, meðal annars heimildaverka á borð við Tengdó með CommonNonsense.

Hver fær að vera á sviði og hvaða sögur eru sagðar í sviðslistum? Leikritið Taktu flugið, beibí! er byggt á persónulegri reynslu og lífshlaupi höfundar, sem tekur þátt í sýningunni. Ég blæs sápukúlur, ég sé sjálfa mig og minningar speglast í þeim áður en þær svífa upp í himininn. Á morgun er skólahlaupið. Ef ég fæ lánaða strigaskó get ég þá hlaupið hraðar? Ég vil ekki vera síðust, það man enginn eftir þeim sem eru síðastir.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími