12. Apr. 2023

Disneysöngleikurinn Frost (Frozen) frumsýndur í glænýrri uppfærslu í Þjóðleikhúsinu og víðar á Norðurlöndunum

Gísli Örn Garðarsson leikstjóri (Vesturport) mun sviðsetja nýja uppfærslu af Disneysöngleiknum Frost (Frozen) á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Sýningin er samstarfsverkefni Vesturports og Det Norske Teatret í Osló, Þjóðleikhússins á Íslandi, Borgarleikhússins í Stokkhólmi og Borgarleikhússins í Helsinki. Tilkynnt verður um danskt leikhús innan tíðar.

Miðasala hefst í haust en hér getur þú skráð þig á lista og verið með þeim fyrstu í röðinni til að kaupa miða þegar sala hefst:

SKRÁ Á BIÐLISTA

Leikhúsin munu í sameiningu sviðsetja nýja uppfærslu á söngleiknum, sem upphaflega var framleiddur af Disney Theatrical Productions. Líkt og á Broadway mun sýningin á Frosti (Frozen) vera byggð á tónlist og söngtextum eftir Óskarsverðlauna-lagahöfundana Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez, og handriti eftir Óskarsverðlaunahöfundinn Jennifer Lee. Gísli Örn Garðarsson mun leikstýra þessari nýju uppfærslu og leiða listrænt teymi hönnuða, sem í eru meðal annars leikmyndahöfundurinn Börkur Jónsson og búningahöfundurinn Christina Lovery, sem munu sækja innblástur í litróf okkar eigin menningararfs. Bragi Valdimar Skúlason mun þýða söngleikinn á íslensku og þýða alla söngtexta upp á nýtt.

Söngleikurinn Frost (Frozen) er byggður á samnefndri teiknimynd Disney og ævintýri danska rithöfundarins Hans Christian Andersen, Snædrottningunni, frá 1844. Í sögumiðju eru tvær systur, Elsa sem býr yfir dularfullu leyndarmáli og er einangruð frá umheiminum og Anna sem leggur af stað í ferðalag til að bjarga henni.

Ævintýrið sækir innblástur í norrænan menningararf, náttúru og goðsagnir og við erum afar stolt af því að fá tækifæri til að færa áhorfendum á Norðurlöndunum nýja uppfærslu á þessum söngleikja-stórviðburði. Í sýningunni eru lagasmellir á borð við “Let it Go“, “Do You Want to Build a Snowman” og fleiri vinsæl lög úr kvikmyndinni, en auk þess hafa Óskarsverðlaunahafarnir sem sömdu hina upprunalegu tónlist, unnið nýjan hljóðheim fyrir söngleikinn og þar er m.a. að finna tólf ný lög, sem voru sérstaklega samin fyrir söngleikinn.

Sýningin verður frumsýnd í Ósló 14. október 2023 og síðan frumsýnd í Reykjavík í febrúar 2024. Sýningar í Stokkhólmi, Helsinki og Kaupmannahöfn verða kynntar síðar.

Öll norrænu leikhúsin eru full tilhlökkunar að sýna söngleikinn og taka þátt í þessu spennandi samstarfi:

Gísli Örn Garðarsson leikstjóri:
“Ég er fullur eftirvæntingar yfir því að fá að gæða norrænu útgáfuna af þessum geysivinsæla söngleik lífi ásamt frábærum hópi listamanna. Þvílík veisla segi ég bara.”

Leikhússtjóri Þjóðleikhússins, Magnús Geir Þórðarson:
“Við hlökkum mikið til að sýna splunkunýja sýningu á þessu ástsæla verki, sem byggt er á norrænum sagnaarfi, í nýrri uppfærslu Gísla Arnar, eins af okkar fremstu leikstjórum, en hann er þekktur fyrir hugmyndaríkar og magnaðar sýningar bæði hérlendis og erlendis.”

Bragi Valdimar Skúlason, þýðandi íslensku gerðarinnar:
„Eftir að hafa horft með athygli á þetta meistaraverk músasmiðjunnar á annað hundrað sinnum og sungið með fullum hálsi gegnum grátstafina og gleðitárin — treysti ég mér fullkomlega til að leggja Önnu, Elsu og öllum hinum samnorrænu vinum mínum íslensk orð í bæði munn og belg, svo fullur sómi sé að.“

Listrænn stjórnandi Det Norske Teatret, Erik Ulfsby:
“Leikhúsið okkar er afar spennt að takast á við verkefnið, sem felst í því að skapa þá ævintýralegu töfra sem leynast í sagnaheimi söngleiksins Frost.  Við erum hæstánægð með samstarfið sem er að fara í gang.”

Listrænn stjórnandi Borgarleikhússins í Stokkhólmi, Maria Sid:
“Það er okkur sönn ánægja að taka þátt í þessu samstarfi og þróa norræna útgáfu af hinni sígildu sögu eftir H.C. Andersen. Að, ásamt vinum okkar á Íslandi, í Noregi, Finnlandi og Danmörku, fá að færa þennan söngleik í norrænt samhengi.”

Listrænn stjórnandi Borgarleikhússins í Helsinki, Kari Arffman:
“Í gegnum árin hefur leikhúsið okkar sett upp nokkra Disney-söngleiki, en þetta er í fyrsta sinn sem við munum framleiða einn slíkan í norrænu samstarfi. Það að framleiða Frost er því tvöfalt gleðiefni fyrir okkur!”

 Svæðisstjóri og SVP hjá The Walt Disney Company Nordic & Baltic, Hans van Rijn, hefur þessu við að bæta:
Áhorfendur á Norðurlöndum hafa tekið ástfóstri við sögurnar og persónurnar úr Frosti allt frá því að fyrsta myndin var frumsýnd fyrir áratug síðan. Ég get ekki séð fyrir mér betri leið til að gleðja hina fjölmörgu aðdáendur verksins, en með frumuppfærslu á Norðurlöndunum á söngleiknum okkar, sem fylgir handriti og tónlist eins og hún var upphaflega þróuð hjá Disney fyrir Broadway uppsetninguna, en nú í endurgerð hins skapandi norræna teymis. Við hlökkum mikið til að vinna með Gísla Erni Garðarssyni og leikhúsunum að því að blása nýju lífi í þetta ástæla verk fyrir svið”.

Um Frost og upprunalegu Broadwayframleiðsluna á Frozen:

Söngleikurinn Frost (Frozen) var upphaflega framleiddur af Disney Theatrical Productions. Hann var frumsýndur í St. James leikhúsinu á Broadway í mars 2018. Sýningin var söluhæst allra sýninga frá upphafi í forsölu á Broadway. Frozen var einnig tekjuhæsti nýi söngleikurinn á Broadway á fyrsta ári sínu á Broadway. Söngleikurinn hefur náð alþjóðlegum vinsældum og verið sýndur á leikför um Ástralíu og Norður-Ameríku, og á West End í London, í Japan og Hamborg í Þýskalandi í upprunalegu Broadway útfærslunni.Teiknimyndin Frozen var gefin út af Disney 19. nóvember 2013 og sló í gegn bæði meðal gagnrýnenda og áhorfenda. Hún hlaut yfir 1,28 milljarða Bandaríkjadala í miðasölutekjur á heimsvísu og varð tekjuhæsta teiknimyndin á þeim tíma, sem og tekjuhæsta tónlistarmyndin, þar til endurgerð á The Lion King fór fram úr henni árið 2019. Frozen II hlaut mestu aðsókn allra teiknimynda á heimsvísu á fyrstu sýningum og hlaut yfir 1,45 milljarða Bandaríkjadala í miðasölutekjur.

Fyrsta myndin vann til tveggja Óskarsverðlauna, fyrir Best Animated Feature og Best Original Song (“Let It Go”) og tveggja Grammy-verðlauna fyrir Best Compilation Soundtrack for Visual Media og Best Song Written for Visual Media (“Let It Go”).

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími