08. Jan. 2020

Starfsfólk Þjóðleikhússins býður Magnús Geir velkominn til starfa

  • Magnú Geir Þórðarson, leikhússtjóri

Magnús Geir Þórðarson hefur formlega tekið til starfa sem þjóðleikhússtjóri en hann var skipaður frá áramótum til fimm ára. Starfsfólk leikhússins tók vel á móti Magnúsi á fyrsta starfsmannafundi sínum en hann vinnur nú að því að koma sér inn í öll helstu mál og verkefni á sínum fyrstu dögum í starfi. Núverandi leikár liggur fyrir en Magnús vinnur nú að því að undirbúa verkefnaval fyrsta leikársins sem hann skipuleggur en það hefst í haust. „Fyrstu dagarnir í starfi hafa verið afskaplega skemmtilegir og gefandi. Ég er upp með mér yfir því að vera treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki og hér sé ég endalaus tækifæri til að sækja fram og efla það góða starf sem hér fer fram.“ Aðspurður segist Magnús Geir fullur tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem eru framundan og móta starfsemi Þjóðleikhússins í samvinnu við starfsfólk hússins. „Það eru forréttindi að fá að taka þátt í leikhústöfrunum og ég trúi því að leikhúsið hafi sjaldan verið mikilvægara en nú. Þjóðleikhúsið hefur mikilvægu hlutverki að gegna og ég mun leggja mig allan fram um að virkja þá krafta sem hér leynast.“

Magnús Geir stundaði nám í leikstjórn við Bristol Old Vic Thea­ter School og lauk MA-gráðu í leik­hús­fræðum frá Uni­versity of Wales, auk þess sem hann er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Magnús hef­ur víðtæka stjórn­un­ar­reynslu og ára­tuga reynslu af leik­hússtörf­um. Áður en hann tók við starfi út­varps­stjóra RÚV fyr­ir sex árum var hann leik­hús­stjóri Borg­ar­leik­húss­ins. Þar áður var hann leik­hús­stjóri Leik­fé­lags Ak­ur­eyr­ar. Jafn­framt hef­ur Magnús Geir mikla leik­stjórn­ar­reynslu, en hann hefur leikstýrt verkum af ólíku tagi hjá ýmsum leikhúsum, íslenskum sem erlendum verkum, nútímaverkum og sígildum leikritum, gamanverkum og átakaverkum, stórsýningum og smærri sýningum, söngleikjum og óperum. Magnús Geir hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar á sviði lista og stjórnunar, og var sæmdur Íslensku fálkaorðunni árið 2013 fyrir störf í þágu íslenskrar menningar og leiklistar.

Starfsfólk Þjóðleikhússins býður Magnús Geir hjartanlega velkominn til starfa.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími