20. Feb. 2023

Sigurjón Jóhannsson leikmyndahöfundur minningarorð

Sig­ur­jón Jó­hanns­son, mynd­list­armaður, hönnuður og leik­mynda­höf­und­ur, lést 8. fe­brú­ar síðastliðinn, 83ja ára að aldri. Útför hans verður gerð frá Dómkirkjunni þriðjudaginn 21. febrúar kl. 15. Sigurjón gerði leikmynd og búninga fyrir fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, auk þess sem hann var yfirleikmyndateiknari leikhússins frá 1976 til 1988. 

Sigurjón Jóhannsson leikmyndahöfundur

Sigurjón Jóhannsson leikmyndahöfundur

Minningarorð Sigurjón Jóhannsson

Kveðja frá Þjóðleikhúsinu

Fallinn er frá einn hæfileikaríkasti og afkastamesti leikhúsmaður íslenskrar sviðslistasögu, en Sigurjón Jóhannsson hannaði leikmynd og búninga fyrir fjölda leiksýninga í ólíkum leikhúsum á löngum og gifturíkum starfsferli, auk þess sem hann hannaði útlit fjölda kvikmynda- og sjónvarpsverkefna. Hann var sannarlega vel að því kominn að hljóta heiðursverðlaun Grímunnar árið 2012, en hann hafði jafnframt hlotið Grímuverðlaunin fyrir leikmynd árið 2003, þegar þau voru veitt í fyrsta sinn.

Fyrstu leikmyndina gerði Sigurjón árið 1967, við sýningu Grímu á Ég er afi minn eftir Magnús Jónsson. Hann starfaði því næst við leikmyndagerð hjá leikhúsum í Kaupmannahöfn um nokkurra ára skeið. Þjóðleikhúsið naut starfskrafta Sigurjóns um árabil og hann vann þar ótal ógleymanleg verkefni. Fyrstu leikmyndina fyrir Þjóðleikhúsið gerði hann árið 1972 og þar starfaði hann óslitið til ársins 1988, sem yfirleikmyndateiknari frá árinu 1976.

Hart í bak Gunnar Eyjólfsson

Hart í bak, 2008, Gunnar Eyjólfsson

 

Sigurjón hannaði um 60 leikmyndir fyrir Þjóðleikhúsið. Meðal verkefna hans þar eru Lýsistrata, Sólarferð, Hnotubrjóturinn, Kaupmaður í Feneyjum, Silfurtúnglið, Góða sálin í Sesúan, Dags hríðar spor, Sölumaður deyr, Hús skáldsins, Silkitromman, Svejk í síðari heimsstyrjöldinni, Gæjar og píur, Íslandsklukkan, Yerma, Pétur Gautur, Seiður skugganna, Niflungahringurinn á Listahátíð 1994, Glerbrot, Tveir tvöfaldir, Landskrabbinn, Syngjandi í rigningunni, Virkjunin og Hart í bak, en síðast talda sýningin var sett á svið árið 2008. Sigurjón gerði einnig búninga við margar af framangreindum sýningum. Hann vann jafnframt að fjölmörgum verkefnum fyrir Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar og Íslensku óperuna.

Sem yfirleikmyndateiknari Þjóðleikhússins var Sigurjón, auk eigin hönnunarverkefna, öðrum leikmyndahöfundum innan handar, og var til þess tekið hversu örlátur og ljúfur Sigurjón var í slíku samstarfi. Sigurjón sat jafnframt í þjóðleikhúsráði á árunum 1984-1988.

Þótt Sigurjón hafi mestmegnis starfað í leikhúsi, þá sinnti hann ætíð eigin myndlist samhliða leikhússtörfunum, og leikmyndateikningar hans voru margar hverjar listaverk í sjálfum sér.

Sigurjón var einstaklega ástríðufullur leikhúsmaður og hlý manneskja. Hann talaði af innsæi, reynslu og skilningi á leikhúsinu. Rödd hans var djúp og róandi og glettni og hlýja í orðrómnum. Sjálfur naut ég þess að vinna með Sigurjóni sem leikstjóri þegar við settum upp söngleikinn Óliver! hjá Leikfélagi Akureyrar. Þar nýttist reynsla Sigurjóns vel þegar sviðið í Samkomuhúsinu umbreyttist í risavaxinn heim Lundúnaborgar og rúmaði stóra hljómsveit og leikhóp. Fyrir þessar minningar og ótal önnur gefandi samtöl og samstarf við Sigurjón í gegnum tíðina verð ég ævinlega þakklátur.

Starfsfólk Þjóðleikhússins minnist Sigurjóns Jóhannssonar með mikilli hlýju og þakklæti fyrir vináttu og ómetanlegt framlag til leikhússins. Minningin um góðan mann lifir.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri

Pétur Gautur 1991

Pétur Gautur, 1991

 

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími