Saknaðarilmur frumsýndur í Kassanum – mundu töfrana
Þjóðleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt verk eftir Unni Ösp Stefándóttur, Saknaðarilmur, í Kassanum 15. febrúar næstkomandi. Verkið, sem er einleikur, skrifar hún upp úr tveimur bóka Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda og Saknaðarilmi. Unnur leikur einleikinn sjálf en leikstjóri er Björn Thors. Skemmst er að minnast síðustu sýningar sem þau Unnur og Björn unnu saman að, en það var verðlaunasýningin Vertu úlfur sem vann til sjö grímuverðlauna en sýningum lauk fyrir skemmstu eftir einstaka göngu þrjú leikár í röð.
Í rökréttu framhaldi af verðlaunasýningunni Vertu úlfur
Stór hluti listræna teymisins sem setti upp verðlaunasýninguna Vertu úlfur, vinnur nú að nýrri uppsetningu. Vertu úlfur hreyfði rækilega við áhorfendum, hlaut sjö Grímuverðlaun og var sýnd fyrir fullu húsi þrjú leikár í röð. Í þetta sinn verður Björn Thors í leikstjórastólnum en Unnur Ösp leikur. Elín Hansdóttir, Filippía Elísdóttir og Björn Bergsteinn Guðmundsson verða áfram um borð en nú bætast Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson við hópinn og munu þau semja tónlistina.
Mundu töfrana
Í þessu nýja verki fylgjumst við með því þegar fullorðin skáldkona missir móður sína og þá er loks komið að stóra uppgjörinu. Nú fyrst er hún tilbúin til þess að horfast í augu við erfiða æsku sína, föðurmissi, geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt. Af hverju náðu þessar tvær konur aldrei sambandi, þó að þær hafi deilt öllu lífi sínu, og reynt að horfast í augu í gegnum sorgir og sigra?
Geta áföll gert okkur veik?
Í verkinu er velt upp spurningum á borð við: Geta áföll gert okkur veik? Erfist þjáning á milli kynslóða? Verkið er áhrifarík saga af lítilli, draumlyndri stúlku sem verður að manísku skáldi, ástföngnum fíkli og stórskemmtilegum sögumanni. Hún er brotin, beitt og brjáluð. Þetta er saga af tengslum og tengslaleysi foreldra og barna, nánd og nándarleysi í veruleikafirrtum heimi sem gerir kröfur um að við pössum í fyrirframgerð mót, stöndum okkur og glönsum.