21. Feb. 2019

Ronja ræningjadóttir á Grænlandi

Samstarfsverkefni þjóðleikhúsa Íslands og Grænlands
Ronja á Grænlandi

Í dag verður ný sýning á Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren frumsýnd í þjóðleikhúsi Grænlands, Nunatta Isiginnaartitsisarfia, í samvinnu við Þjóðleikhús Íslendinga. Þetta er í fyrsta skipti sem þjóðleikhús þessara tveggja landa setja upp leiksýningu í sameiningu.

Ronja ræningjadóttir, eða Ronja piiaasup pania á grænlensku, verður einnig sýnd víða um Grænland. Um nýja uppfærslu og leikgerð er að ræða, þar sem verkið er aðlagað grænlenskum aðstæðum, með nýrri tónlist eftir Gerth Lyberth.

Þrír af helstu listrænu aðstandendum sýningarinnar koma frá Íslandi, Björn Ingi Hilmarsson leikstjóri, Finnur Arnar Arnarson leikmyndahöfundur og Ólafur Ágúst Stefánsson ljósahöfundur. Leikmynd sýningarinnar var jafnframt smíðuð á verkstæði Þjóðleikhússins.

Ronja-Nunatta-Isiginnaartitsisarfia-4-Ljosmynd-Finnur-Arnar-Arnarson-DSCF0311

Svo skemmtilega vill til að þeir Björn Ingi, Finnur Arnar og Ólafur Ágúst komu allir að hinni vinsælu sýningu Þjóðleikhúss Íslendinga á Ronju ræningjadóttur sem frumsýnd var á liðnu hausti á Stóra sviðinu, í leikstjórn Selmu Björnsdóttur. Finnur gerði leikmynd fyrir sýninguna og Ólafur Ágúst hannaði lýsingu, en Björn Ingi var í hlutverki ræningjans Breka. Þegar Björn Ingi hélt til Grænlands að leikstýra Ronju þar tók Snorri Engilbertsson við hlutverki hans í Ronju hér. Grænlenska sýningin er þó gerólík þeirri íslensku, en um er að ræða farandsýningu með átta grænlenskum leikurum í hlutverkunum. Vonir standa til þess að hægt verði að bjóða sýningunni til Íslands.

Björn Ingi og Ólafur Ágúst eru báðir fastráðnir starfsmenn Þjóðleikhússins. Björn Ingi hefur komið að samstarfi þjóðleikhúsanna tveggja í víðara samhengi á undanförnum árum, en Þjóðleikhús Íslendinga hefur, í anda Vestnorrænnar samvinnu, lagt sérstaka áherslu á að styðja við hið nýstofnaða þjóðleikhús Grænlands, sem var stofnað árið 2011.

Ronja-Nunatta-Isiginnaartitsisarfia-3-Ljosmynd-Finnur-Arnar-Arnarson-DSCF0283

Þjóðleikhús Íslands hefur meðal annars haft forgöngu um að kynna Þjóðleiksverkefnið á Grænlandi, með það fyrir augum að hrinda því í framkvæmd þar. Þjóðleikur er leiklistarverkefni Þjóðleikhússins fyrir ungt fólk, sem hefur verið haldið í samstarfi við ýmsa aðila á landsbyggðinni frá árinu 2009. Leikhópar ungs fólks á landsbyggðinni njóta stuðnings fagaðila í Þjóðleikhúsinu til að setja upp leikrit, sem þeir sýna á leiklistarhátíð í hverjum landshluta. Verkefnið hefur stöðugt vaxið og dafnað, og sífellt fleiri landsvæði hafa slegist í hópinn. Árið 2017 var haldið námskeið í Nuuk þar sem Þjóðleikur var kynntur, og undirbúningur verkefnisins stendur yfir.

Ronja-Nunatta-Isiginnaartitsisarfia-2-Ljosmynd-Finnur-Arnar-Arnarson-DSCF0177

Þjóðleikhúsið hefur einnig boðið grænlenskum skólabörnum í leikhús árlega á undangegnum fimm árum. Börnin hafa komið á vegum Kalak, vinafélags Grænlands og Íslands, til landsins, en Kalak býður börnum í 5. bekk frá þorpum á austurströnd Grænlands hingað. Mörg þessara barna hafa aldrei fyrr komið í leikhús, en hefur verið boðið að kynnast ævintýraheimi leikhússins með sýningum á Stóra sviðinu og minni sviðum.

Ronja-Nunatta-Isiginnaartitsisarfia-1-Ljosmynd-Finnur-Arnar-Arnarson-DSCF0434Ljósmyndir úr sýningunni tók Finnur Arnar Arnarson leikmyndahöfundur.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími