26. Feb. 2019

Jónsmessunæturdraumur frumsýndur á föstudag

Einn vinsælasti gamanleikur Shakespeares í nýrri uppsetningu

Jónsmessunæturdraumur er einn vinsælasti gamanleikur skáldjöfursins Williams Shakespeares, þar sem draumur og veruleiki mætast og ímyndunarafl, erótík og spenna ráða ríkjum.

Verkið gerist í Aþenu þar sem Þeseifur hertogi ræður ríkjum, og brúðkaup hans og Hippólítu drottningar Amasónanna er í vændum. En ástarflækjur ungra elskenda setja allt í uppnám. Hermía og Lísander elska hvort annað út af lífinu. Demetríus hefur fengið leyfi Egeifs föður Hermíu til að giftast henni, og Egeifur hótar að láta taka Hermíu af lífi ef hún giftist ekki þeim manni sem hann hefur valið henni. Og Helena, æskuvinkona Hermíu, þráir Demetríus heitt! Ungu elskendurnir bregða á það ráð að flýja burt úr Aþenu, en það er Jónsmessunótt, töfrarnir ráða ríkjum og kynjaverur fara á kreik.

Þórarinn Eldjárn hefur gert nýja þýðingu á þessum ærslafulla blekkingaleik, en verkið er að mestu á bundnu máli. Þórarinn hefur áður gert rómaðar þýðingar á leikritum Shakespeares Lé konungi og Macbeth fyrir Þjóðleikhúsið. Þýðing Þórarins kemur út á bók á vegum Forlagsins.

Í sýningunni lætur yngsta kynslóð leikara til sín taka ásamt nokkrum af okkar helstu gamanleikurum. Þrír leikarar sem útskrifuðust af leikarabraut LHÍ á liðnu vori leika í sýningunni, þau Eygló Hilmarsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Hákon Jóhannesson, og í hópi handverksmannanna í verkinu eru þau Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson og Pálmi Gestsson. Aðrir leikarar og dansarar í sýningunni eru Atli Rafn Sigurðarson, Birgitta Birgisdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Oddur Júlíusson, Bjarni Snæbjörnsson, Edda Arnljótsdóttir, Hildur Jakobína Tryggvadóttir, Hildur Ketilsdóttir, Juliette Louste, Sindri Diego og Skotta. Hljómsveitarstjóri er Aron Steinn Ásbjarnarson en hljómsveitina skipa leikarar úr sýningunni.

Leikstjóri er Hilmar Jónsson, Eva Signý Berger gerir leikmynd og Halldór Örn Óskarsson hannar lýsingu. Þær Karen Briem búningahöfundur og Katrín Gunnarsdóttir danshöfundur þreyta hér frumraun sína í Þjóðleikhúsinu sem listrænir stjórnendur. Gísli Galdur Þorgeirsson sér um tónlist, tónlistarstjórn og útsetningar, og gerir jafnframt hljóðmynd ásamt Kristjáni Sigmundi Einarssyni. Magnea J. Matthíasdóttir þýðir söngtexta.

Að venju er boðið upp á umræður eftir 6. sýningu, laugardagskvöldið 30. mars.

Leikskrá sýningarinnar má finna hér .

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími