Rafrænar leikprufur fyrir 9 – 13 ára börn fyrir Draumaþjófinn
Þjóðleikhúsið stendur fyrir opnum, rafrænum leikprufum fyrir börn, á aldrinum 9-13 ára. Leitað er að tólf börnum til að taka þátt í fjölskyldusöngleiknum, Draumaþjófurinn. Verkið er glænýtt íslenskt leikverk byggt á bók Gunnars Helgasonar í leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur. Stefán Jónsson leikstýrir en með aðalhlutverk fara Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson en alls taka 17 leikarar þátt í sýningunni, auk barnanna sem nú er leitað að og hljómsveitar. Þorvaldur Bjarni semur nýja tónlist og danshöfundur er Lee Proud.
Nýjung – rafrænar prufur
Prufurnar eru rafrænar, allir sem hafa aldur til, geta tekið þátt auk þess sem börn sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli er sérstaklega hvött til þess að taka þátt. Óskað er eftir þremur prufum, dans, leik og söng-prufu sem hvert og eitt getur tekið upp á síma og sent inn í gegnum skráningarvef leikhússins. Síðasti skiladagur er sunnudagur 20. nóvember.
Leitað að fjölbreyttum hópi
Þjóðleikhúsið leggur áherslu á að endurspegla sem best fjölbreytileika samfélagsins og því stendur öllum börnum, burtséð frá því tungumáli sem þau tala, opið að senda inn umsóknir í prufurnar. Upplýsingar eru því einnig settar fram á ensku og hægt er að velja að sjá enskan texta á kynningarmyndböndum.
Skemmtilegt efni til að nota við leiklistarkennslu eða eigin æfingar
Leikhúsið kappkostar að prufurnar séu skemmtilegar og aðgengilegar. Því eru kennslumyndbönd og tónlist gerð aðgengileg og börnum boðið að nýta að vild. Efnið er líka tilvalið til að nýta í skólastarfi þar sem hægt er að æfa lög og dansa eftir forskrift myndbandanna.