Ræninginn Kasper uppvís að gjafakortaþjófnaði á 100. sýningu Kardemommubæjar
Það varð uppi fótur og fit á hundruðustu sýningu á Kardemommubænum um helgina. Í lok sýningar var sætisnúmer dregið úr hatti tónlistarstjórans Karls Olgeirssonar og heppin fjölskylda vann gjafajakort á söngleikinn Sem á himni sem verður frumsýndur í haust.
Þegar Bastían bæjarfógeti ætlaði að afhenda gjafakortið reyndist það vera horfið. Athygli leikhúsgesti beindist nú snögglega að ræningjanum Kasper, sem var þá kominn langleiðina út úr salnum og sagðist vera á leið á námskeið í brunavörnum. Þegar gengið var á Kasper, kannaðist hann alls ekki við að hafa gjafakortið undir höndum, en snarráðir íbúar Kardemommubæjar fundu það fljótt í jakkavasa hans. Þá komst Kasper að þeirri niðurstöðu að gjafakortið hefði, alveg óvart, dottið þangað.
Bastían skimar eftir vinningshafanum
En allt er gott sem endar vel og leikhúsgestirnir fengu gjakakortið sitt á endanum. Bastían bæjarfógeti hefur sagt að málið hafi verið látið niður falla og að engir eftirmálar verði vegna þessa. Allir fóru því ánægðir heim að sýningu lokinni. Nú eru aðeins þrjár sýningar eftir af Kardemommubænum og einugis örfá sæti laus. Það er aldrei að vita hvað það líður langur tími þar til Kardemommubærinn fer aftur á svið og síðustu forvöð að tryggja sér miða.
Vinningshafar fundust á endanum.
Bastían leitar að gjafakortinu, en finnur ekki.
Kasper reynir að laumast út en Soffía frænka skipar honum til baka.
Kasper segist ekki finna gjafakortið.
Kasper afhendir ránsfenginn. Allt er gott sem endar vel.