26. Maí. 2022

Þjóðleikhúsið í samstarf við Complicité, einn fremsta leikhóp heims

Þessa dagana vinnur einn virtasti leikstjóri heims í Þjóðleikhúsinu að þróun sýningar sinnar sem frumsýnd verður í London á næsta ári en hún byggir á skáldsögu nóbelsverðlaunahafans Olgu Tokarczuk, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu. Þjóðleikhúsið er samstarfsaðili hins virta leikhóps Complicité, Odéon-leikhússins í París o.fl. um þessa alþjóðlegu sýningu sem mun ferðast um heiminn á næsta ári og verður sýnd á fjölum Þjóðleikhússins á árinu. Þessi uppsetning markar upphaf samstarfs Þjóðleikhússins við Complicité en hópurinn hefur verið í flokki fremstu leikhópa heims um árabil.

Þjóðleikhúsið hefur unnið að því að byggja upp samstarf við hinn heimsþekkta og virta leikhóp Complicité, sem Simon McBurney, einn fremsti leikstjóri heims, leiðir. Þjóðleikhúsið er samstarfsaðili við uppsetningu verksins, auk Odéon-leikhússins í París, um nýja sýningu Complicité sem frumsýnd verður í Bretlandi á næsta leikári, og heldur síðan í leikferð um heiminn. Sýningin verður sýnd í Þjóðleikhúsinu á næsta ári. Sýningin er byggð á skáldsögu pólska nóbelsverðlaunahafans Olgu Tokarczuk, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu, sem nýlega kom út í íslenskri þýðingu og hefur fengið frábærar viðtökur hér sem annars staðar. Samvinna Þjóðleikhússins og Complicité hefst formlega nú í vikunni með vinnusmiðjum undir stjórn Simon McBurney og Tim Bell ásamt leikurum og öðru listafólki Þjóðleikhússins.

Complicité er einn allra virtasti leikhópur Evrópu, og hefur hlotið yfir 50 eftirsótt leiklistarverðlaun víða um heim. Hinn mikilsvirti leikstjóri og leikari Simon McBurney er listrænn stjórnandi hópsins. Complicité hefur aðsetur í London en ferðast um heim allan með sýningar sínar. Sýning hópsins Street of Crocodiles var sýnd á Listahátíð í Reykjavík árið 1994 við frábærar undirtektir. Complicité-hópurinn er þekktur fyrir vinnuaðferðir sem byggjast á mikilli rannsóknarvinnu og samsköpun alls hópsins, og einstaklega sterkar og sjónrænar sýningar sem fjalla um knýjandi málefni. Meðal heimsþekktra sýninga Complicité eru Mnemonic, The Elephant Vanishes, A Disappearing Number, The Encounter, Beware of Pity, The Master and Margarita, The Vertical Line og Shun-Kin. The Times sagði “the most influential and consistently interesting theatre company in Britain”, British theatre guide sagði: “Complicite remains entirely without parallel in British theatre” og the Daily Telepraph sagði: “Complicite has expanded the possibilities of theatre”.

“Það eru stórtíðindi að hinn einstaki leikhópur Complicité, með einn fremsta leikstjóra heims í fararbroddi, sé kominn í samstarf við íslenskt leikhús. Við í Þjóðleikhúsinu erum í skýjunum og hlökkum mikið til samstarfsins. Sjálfur hef ég verið einlægur aðdáandi sýninga McBurney um langt árabil og hef séð ótal sýningar hans. Það má því segja að hér sé draumur minn og fleira íslensks leikhúsfólks að rætast,” segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.

Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk kom út í þýðingu Árna Óskarssonar hjá Bókaforlaginu Bjarti fyrir skömmu. Í litlu samfélagi í afskekktri pólskri sveit, um hávetur, taka menn að deyja við dularfullar kringumstæður. Janina Duszejko, fyrrum brúarsmiður og kennari, stjörnuspekingur, umhverfisverndarsinni, dýravinur og þýðandi ljóða Williams Blakes, hefur sínar hugmyndir um hvað búi að baki morðunum. Hún hefur fylgst náið með dýrunum og finnst þau hafa hagað sér undarlega undanfarið… Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu er bókmenntaleg glæpasaga sem kemur stöðugt á óvart, og leiksýningin mun m.a. fjalla um aktívisma, eitraða karlmennsku, samband okkar við dýr og undramátt ljóðlistarinnar. Verkið spyr knýjandi spurninga um hvað felst í því að lifa í sátt og samlyndi við sköpunarverkið og hættuna sem stafar af því þegar við glötum tengslunum við náttúruna.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími