11. Maí. 2022

Leiklestur á pólsku / staged reading / czytanie po polsku

Leikgerð af bókinni Munaðarleysingjahælinu eftir úkraínska höfundinn  verður leiklesin á pólsku í Kassanum í Þjóðleikhúsinu þriðjudaginn 17. maí kl. 20, í meðförum leikara frá frá Stefan Żeromski leikhúsinu í Kielce. Leiklesturinn margar upphaf samstarfs Þjóðleikhússins við leikhúsið í Kielce. Lesturinn verður textaður á ensku. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn, en bóka þarf miða.

Bók Serhij Zadhans, Internat eða Munaðarleysingjahælið, kom út í Úkraínu árið 2017 og hlaut strax mikið lof, en sérstök athygli hefur beinst að henni að nýju í tengslum við stríðsátökin í heimalandi höfundarins. Stefan Żeromski leikhúsið hefur unnið um klukkustundar langa leikgerð byggða á bókinni, sem leiklesin verður á pólsku, með enskum texta. Einnig verður stutt myndband sýnt í upphafi leiklestarins.

 

Leiklesturinn markar upphafið að listrænu samstarfi Þjóðleikhússins og Stefan Żeromski leikhússins í Kielce í Póllandi, sem er liður í viðleitni Þjóðleikhússins til að ná betur til pólska samfélagsins á Íslandi og endurspegla það. Samstarfsverkefnið er stutt af Uppbyggingarsjóði EES.

 

Stefan Żeromski leikhúsið er meðal elstu leikhúsa Póllands og nýtur mikillar virðingar í heimalandinu og utan landsteinanna. Leikhúsið hefur ferðast víða með sýningar sínar og sýnt á leiklistarhátíðum innan lands og utan. Una Þorleifsdóttir leikstjóri hefur sett upp tvær sýningar í Stefan Żeromski leikhúsinu. Samstarf leikhúsanna tveggja á næstu árum verður kynnt nánar bráðlega, en það mun fela í sér gestasýningar í báðum leikhúsum, gagnkvæmar heimsóknir og samstarf á sviði þekkingarmiðlunar og síðast en ekki síst þróun nýs leikverks sem skrifað verður um stöðu Pólverja sem búsettir eru á Íslandi.

 

Leikararnir sem leiklesa verkið eru þau Anna Antoniewicz, Ewelina Gronowska, Mateusz Bernacik og Łukasz Pruchniewicz. Leikstjóri er Karolina Szczypek, leikgerðina gerir Paweł Sablik og myndbandshönnuður er Jana Moroz.

 

Um Munaðarleysingjahælið:

Verkið er innblásið af stríðshörmungunum í Donbasshéraðinu í austurhluta Úkraínu árið 2014 og lýsir átakanlegri baráttu óbreyttra borgara við að komast af. Í bókinni er sagt frá 35 ára úkraínskum kennara sem tekst á hendur að bjarga systursyni sínum, en hann býr á munaðarleysingjahæli í nálægri borg sem óvinaher hefur ráðist inn í. Leið þeirra liggur um átakasvæði, rústir og sviðna jörð, og þeir mæta fólki úr ýmsum áttum sem stríðið hefur sett mark sitt á, hermönnum, fórnarlömbum stríðsins, fjölmiðlafólki og flóttafólki. Á magnaðan og lýrískan hátt lýsir höfundurinn hvernig líf venjulegs fólks, barna og fullorðinna, umbreytist á svipstundu í helvíti á jörð. Bókin var valin ein af “Six Books to Read for Context on Ukraine” af New York Times og ein af 20 bestu bókum ársins 2021 af Publishers Weekly. Í fjölmiðlaumfjöllun hefur m.a. verið sagt um hana: “Áhrifamikil… Fyrir þá sem vilja fá einhverja hugmynd um það hvernig lífið í Úkraínu verður næstu tvö árin, veitir Munaðarleysingjahælið ógnvekjandi innsýn.“ (Bill Marx, Arts Fuse).

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími