04. Sep. 2019

Nýtt götuheiti við Þjóðleikhúsið: Egnersund

Gatan vestan megin Þjóðleikhússins skírð eftir norska leikritaskáldinu Thorbjörn Egner

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur fallist á tillögu Ara Matthíassonar þjóðleikhússtjóra um að gatan sem liggur vestan megin við Þjóðleikhúsið, milli Hverfisgötu og Lindargötu, verði nefnd Egnersund í höfuðið á norska leikritaskáldinu Thorbjörn Egner.

Verk norska listamannsins Thorbjörns Egners hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Skáldskapur Egners rataði beint að hjarta íslenskra barna og Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi hafa verið sett á svið á Stóra sviði Þjóðleikhússins reglulega allar götur síðan, við miklar vinsældir. Egner hreifst svo mjög af sýningum Þjóðleikhússins á verkum sínum að hann gaf leikhúsinu sýningarréttinn á þeim í hundrað ár. Gjöfin var háð því skilyrði að höfundarréttargreiðslur skyldu renna í sjóð sem styrkja ætti leiklistarstarfsemi. „Ekkert leikskáld hefur verið Þjóðleikhúsinu jafn gjöfult og Thorbjörn Egner og ekkert leikskáld hefur laðað fleiri börn í leikhúsið en hann,“ segir Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri. „Það væri því sómi að því að sundið milli Þjóðleikhússins og Þjóðmenningarhússins fengi nafn Egners sem hefur verið mikill velgjörðarmaður íslensks leikhúss.“

Kardemommubærinn verður í apríl settur upp í Þjóðleikhúsinu í sjötta sinn, nú sem 70 ára afmælissýning Þjóðleikhússins, sem er vel við hæfi þar sem Þjóðleikhúsið hefur alla tíð lagt sérstaka áherslu á veglegar barnasýningar og hafa sýningar á verkum Egners þar verið í fararbroddi.

Hér að neðan má sjá mynd úr fyrstu uppsetningunni á Kardemommubænum, árið 1960. Með hlutverk ræningjanna þá fóru Baldvin Halldórsson (Jesper), Bessi Bjarnason (Jónatan) og Ævar Kvaran (Kasper). Leikstjóri var Klemenz Jónsson, sem leikstýrði fyrstu þremur sýningunum á Kardemommubænum.

Kardemommubaerinn_1567676342558

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími