18. Sep. 2019

Leikprufur fyrir Kardemommubæinn í Þjóðleikhúsinu

Hið sívinsæla leikrit Thorbjörns Egners Kardemommubærinn verður frumsýnt í apríl 2020, á 70 ára afmæli Þjóðleikhússins. Þjóðleikhúsið leitar að hæfaleikaríkum börnum á aldrinum 9-17 ára til að taka þátt í uppfærslunni.

Nú er skráningum lokið í leikprufur fyrir Kardemommubæinn, en alls bárust okkur um eitt þúsund skráningar.
Upplýsingar um prufurnar verður áfram hægt að finna á þessari síðu.

Þátttakendur fá innan skamms póst með mætingartíma sínum.

1. Hlutverk Tomma eða Kamillu (9 – 13 ára)

Miklar kröfur um færni í leik, söng og dansi.
Undirbúa þarf valinn leiktexta og lag fyrir söngprufu, “Heyrið lagið hljóma” (Söngur Kamillu). (Sjá leik- og söngtexta neðst á síðu).
Söngtextablöð verða á staðnum en leiktextann þarf að læra utanað.
Athugið að ekki munu öll börn komast áfram í söngprufur.

2. Hlutverk dýra og barna – yngri flokkur (9 – 12 ára)

Dans- og sönghlutverk dýra og og barna í Kardemommubæ.
Miklar kröfur um færni í söng og dansi.
Undirbúa þarf lag fyrir söngprufu, “Heyrið lagið hljóma” (Söngur Kamillu).
Athugið að ekki munu öll börn komast áfram í söngprufur.

3. Hlutverk dýra og barna – eldri flokkur (13 – 17 ára)

Dans- og sönghlutverk dýra, barna og og íbúa í Kardemommubæ.
Miklar kröfur um færni í söng og dansi.
Undirbúa þarf lag fyrir söngprufu, “Kardemommusöngurinn”.
Athugið að ekki munu öll börn komast áfram í söngprufur.


Gott að vita!

  • Að vera í þægilegum fötum og skóm til að hreyfa sig í og dansa. 
  • Gera ráð fyrir að prufur geta tekið allt upp í 2 klst

Yfirumsjón með prufunum hafa þrír af listrænum stjórnendum sýningarinnar, þau Ágústa Skúladóttir leikstjóri, Chantelle Carey danshöfundur og Karl Olgeirsson tónlistarstjóri, en þau hafa öll mikla reynslu af stjórnun viðamikilla leiksýninga með dansi og söng. Ágústa Skúladóttir hefur sett upp mikinn fjölda barna- og fjölskyldusýninga, meðal annars Dýrin í Hálsaskógi, Línu Langsokk og Grímuverðlaunasýningarnar Klaufa og kóngsdætur og Í skugga Sveins. Karl Olgeirsson hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi og var meðal annars hljómsveitarstjóri í We Will Rock You og Slá í gegn, og fékk Grímuverðlaunin fyrir hljóðmynd í Einræðisherranum. Chantelle Carey fékk meðal annars Grímuverðlaunin fyrir Bláa hnöttinn og Slá í gegn.

Leiktexti

(Ath að læra þarf þennan texta utanbókar)

Ég reið á Pontíusi út á sléttuna. Þá sá ég hátt, skrítið gamalt hús. Mér þætti gaman að vita, hver býr þarna, hugsaði ég. Og svo skildi ég Pontíus eftir, læddist heim að húsinu og gægðist inn um mjög óhreinan glugga.

 

Söngtextar

Heyrið lagið hljóma (Söngur Kamillu)
Fyrir stelpur og stráka sem komast áfram í söngprufur.

Heyrið lagið hljóma
hreina bjarta óma.
Einn og tveir og þrír
og einn og tveir og þrír.
Áfram enn skal telja
aðrar nótur velja.
Einn og tveir og þrír.

og einn og tveir og þrír.

Ef ég íþrótt stranga
æfi daga langa.
Einn og tveir og þrír
og einn og tveir og þrír.
Eykst mér lag og leikni
leik ég þá með hreykni.
Síðar sannið til
þá sést hvað í mér býr

Kardemommusöngurinn

Hér í Kardemommu okkar líf er yndislegt
allir dagar líða hjá í kyrrð og ró og spekt.
Bakarinn hnoðar kökur og skóarinn smíðar skó.
Ja, skyldi maður ekki hafa nóg?

Og borgin okkar best er gjörð
af borgum öllum hér á jörð.
Bæjarfógetinn Bastían
er betri en nokkur lýsa kann.
Og trommur við og trompet höfum
taki þig að langa í dans,
og hljómleikar á hverjum degi
haldnir eftir vilja manns.
Já, lifi borg vor, best hún er.
Hér búum við, uns ævin þverr!

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími