16. Sep. 2019

Frumsýning á Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur)

Fimmtudaginn 19. september frumsýnir Þjóðleikhúsið í Kassanum leikritið Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Skáldsagan Ör spratt á sínum tíma af uppkasti að þessu leikriti. Leikritið byggir á sama grunni og skáldsagan en lýtur eigin lögmálum. Ólafur Egill Egilsson leikstýrir og Baldur Trausti Hreinsson leikur aðalhlutverkið. Írski tónlistarmaðurinn Damien Rice semur lag sérstaklega fyrir sýninguna.

Leikritið Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) er í senn órætt, fyndið og ágengt, og spyr áleitinna spurninga um lífið og dauðann, samskipti kynjanna og leit að samastað í veröldinni. Jónas Ebeneser, fráskilinn karlmaður á miðjum aldri, fær að vita að uppkomin dóttir hans, Vatnalilja, er í raun barn annars manns. Vængbrotinn og í djúpri tilvistarkreppu reynir Jónas að átta sig á hlutverki sínu í þessum heimi og skilja konur, rétt eins og Svanur, nágranni hans og kórfélagi.

Í lífi Jónasar eru þrjár konur; Stella móðir hans sem dvelur á dvalarheimili og er gagntekin af tölfræði stríða, líffræðingurinn Vatnalilja sem er sérfræðingur í súrnun sjávar og innflytjandinn Maí sem starfar á dvalarheimilinu og tekst á við fortíð í stríðshrjáðu landi. En konur geta verið flóknar og margt sem þær varðar sannkölluð ráðgáta. Eða hvað á kona við þegar hún segir við karlmann að hann rekist utan í sjóndeildarhring hennar?

„Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum,“ sagði Auður Ava Ólafsdóttir þegar hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 fyrir skáldsöguna Ör, sem kom út árið 2016. Skáldsagan spratt á sínum tíma af uppkasti Auðar Övu að leikriti sem hún hefur nú lokið við að semja. Leikritið er sjálfstætt verk sem lýtur eigin lögmálum, þótt það byggist á sama grunni og skáldsagan.

Írski tónlistarmaðurinn Damien Rice, sem hefur að hluta verið búsettur á Íslandi í fjölmörg ár, semur lag sérstaklega fyrir sýninguna. Lagið hefur hlotið nafnið Able.

Að vanda verður boðið verður upp á umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu, sunnudagskvöldið 6. október. Einnig verður haldinn málfundur um verkið og sýninguna í málfundaröðinni “Samtal um leikhús” í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í Veröld mánudaginn 7. október kl. 17-18.

KAUPA MIÐA

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími