Nýir listrænir stjórnendur við Þjóðleikhúsið
Til að efla leikhúsið, skerpa á listrænni sýn og stöðu hefur Þjóðleikhúsið fastráðið fjóra öfluga og reynda listræna stjórnendur til að skipa teymi listrænna stjórnenda við leikhúsið ásamt leikhússtjóra. Allir verða þeir virkir í listrænni sköpun í leikhúsinu ásamt öðrum listamönnum hússins. Hlutverk teymis fastráðinna listrænna stjórnenda er jafnframt að taka þátt í að móta listræna stefnu leikhússins með þjóðleikhússtjóra og styðja við hana, auk stefnumótunar fyrir leikhúsið almennt.
Lesa meira!
Eftirtaldir hafa verið fastráðnir listrænir stjórnendur við Þjóðleikhúsið:
· Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir sem listrænn ráðunautur og staðgengill leikhússtjóra
· Ólafur Egill Egilsson sem fastráðinn leikstjóri
· Ilmur Stefánsdóttir sem fastráðinn leikmyndahöfundur
· Björn Bergsteinn Guðmundsson sem yfirljósahönnuður
Auk þeirra þá hefur Unnur Ösp Stefánsdóttir einnig gengið til liðs við leikhúsið og mun vinna jöfnum höndum sem leikari og leikstjóri á komandi árum.
„Það er gríðarlegur fengur fyrir Þjóðleikhúsið að fá þessa reyndu og öflugu listamenn til liðs við leikhúsið. Þessir leikhúslistamenn eru leiðandi, hver í sínum flokki. Ég er ekki í vafa um að landsmenn eigi eftir að njóta margra ógleymanlegra sýninga undir þeirra stjórn á næstu árum. Auk þess mun þessi hópur skipa þétt teymi sem vinnur að listrænni stefnu hússins – en leikhúsið stendur á skapandi tímamótum nú á 70 ára afmæli Þjóðleikhússins,“segir Magnús Geir þjóðleikhússtjóri og bætir við að þessir listamenn bætist við frábæran hóp sem starfar í leikhúsinu. „Það eru spennandi tímar framundan í Þjóðleikhúsinu“, segir Magnús Geir að lokum en hann tók við starfi þjóðleikhússtjóra um áramótin