30. Ágú. 2018

Leikferð um landið hefst í dag

Þjóðleikhúsið býður börnum um land allt á leiksýningu

Ungum börnum boðið á leiksýningu til að kynna þeim töfraheim leikhússins

 

Þjóðleikhúsið heldur uppteknum hætti frá fyrri árum og býður börnum um land allt í leikhús. Að þessu sinni er það brúðumeistarinn Bernd Ogrodnik sem sýnir börnunum sjö stutta leikþætti. Handunnar trébrúður hans og heillandi töfrabrögð kalla fram eftirvæntingu og kátínu ungra leikhúsgesta.

Leikferð víðsvegar um landið – Sýnt á 15 stöðum fyrstu níu daga leikferðarinnar

Börnum á landsbyggðinni í elstu bekkjum leikskóla og yngstu bekkjum grunnskóla verður boðið á sýninguna, en Þjóðleikhúsið leggur mikla áherslu á að kynna leikhúsið börnum óháð búsetu og efnahag. Fyrsta sýningin verður á Selfossi, þann 31. ágúst, og í kjölfarið heldur Bernd til Akraness, Borgarness, Ólafsvíkur, Stykkishólms, Búðardals, Hólmavíkur, Patreksfjarðar, Ísafjarðar, Sauðárkróks, Akureyrar, Húsavíkur, Mývatns, Þórshafnar og víðar.

Sögustund í Reykjavík tíunda árið í röð

Sýningar í Reykjavík hefjast í Leikhúskjallaranum þann 9. október, en tíunda árið í röð býður Þjóðleikhúsið börnum í elstu deildum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu í heimsókn í leikhúsið með kennurum sínum til að kynnast töfraheimi leikhússins.

Leikhúsuppeldi

Þjóðleikhúsið hefur allt frá upphafi lagt mikla áherslu á barnasýningar og leikhúsuppeldi með glæsilegum sýningum á Stóra sviðinu, og í gegnum tíðina hefur einnig verið boðið upp á heillandi barnasýningar á minni sviðunum. Með Sögustund vill Þjóðleikhúsið leggja sitt af mörkum til að kynna börnum heim leikhússins, því að leikhúsferðir geta veitt ungum sem öldnum mikla gleði, örvað þroska og eflt hæfileika okkar til að takast á við lífið og tilfinningar okkar.

Verkið er sýnt í samstarfi við Brúðuheima.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími