13. Okt. 2019

Hátíðardagskrá í kvöld til heiðurs Jóhanni Sigurjónssyni

“Reikult er rótlaust þangið”

  • Johann-Sigurjonsson

Þjóðleikhúsið, í samstarfi við Vonarstrætisleikhúsið, minnist Jóhanns Sigurjónssonar á Hátíðarkvöldi á Stóra sviðinu í kvöld, mánudaginn 14. október. Fram koma margir þekktir listamenn og boðið verður upp á leiklestur, ljóðalestur og söng, auk umfjöllunar um list skáldsins.

Nú í haust eru liðin 100 ár frá andláti skáldsins Jóhanns Sigurjónssonar (f. 19. júní 1880 – d. 31. ágúst 1919), en hann lést í Kaupmannahöfn aðeins 39 ára gamall. Hann var þá orðinn almennt viðurkenndur sem eitt helsta þálifandi leikskáld Norðurlanda og verk hans leikin víða um Evrópu og í Vesturheimi. Þrjú af fjórum þekktustu leikverkum hans voru þó frumflutt á Íslandi.

Jóhann Sigurjónsson skipaði sér í fremstu röð ljóðskálda og var einn af upphafsmönnum fríljóðsins. Við sum ljóða hans hafa verið samin lög sem alþekkt eru og oft heyrast flutt. Þeirra á meðal er Heimþrá, en þangað er yfirskrift hátíðakvöldsins sótt, Bikarinn, sem mörg tónskáld hafa spreytt sig á, og ekki síst vögguvísa Höllu úr Fjalla-Eyvindi, Sofðu unga ástin mín, sem hvert mannsbarn á Íslandi þekkir.

Á hátíðarkvöldinu koma fram margir þekktustu listamenn þjóðarinnar og meðal þeirra eru Hilmir Snær Guðnason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Anna Kristín Arngrímsdóttir, Arnar Jónsson, Eyjólfur Eyjólfsson og Kristján Franklín Magnús. Vigdís Finnbogadóttir ávarpar samkomuna og þeir Sveinn Einarsson og Sveinn Yngvi Egilsson fjalla um skáldskap Jóhanns. Einnig verða leiklesin atriði úr verkum skáldsins, flutt ljóð og sungin. Umsjón með leiklestrum hefur Árni Kristjánsson. Að undirbúningnum unnu Þórunn Magnea Magnúsdóttir og Sveinn Einarsson.

Fögnuðurinn verður sem áður sagði á Stóra sviðinu mánudaginn 14. október og hefst hann kl. 19:30. Aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími